Ég ætla að hafa það fyrir mig

Eyjakonan Júlíana Sveinsdóttir með boltann í dag.
Eyjakonan Júlíana Sveinsdóttir með boltann í dag. Ottar Geirsson

„Þetta er mikilvægur sigur fyrir okkur. Þó að það sé langt frá síðasta sigri þá megum við ekki gleyma því að við erum búin að standa okkur vel í mjög mörgum leikjum og það vantaði oft lítið uppá til að vinna. En það er rétt, við erum búin að bíða mjög lengi eftir þessum sigri. Stelpurnar áttu þetta skilið í dag og mér fannst úrslitin sanngjörn,“ sagði Todor Hristov, þjálfari ÍBV, eftir 2:0 sigur á Selfossi í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í dag.

Þetta var fyrsti sigur ÍBV í deildinni í 43 daga en liðið hefur ekki unnið leik frá því í 3. umferð.

„Í dag þá gekk margt vel sem við vorum búin að æfa fyrir leik. Það er gaman þegar gengur vel, vikurnar eru langar og erfiðar og þungar þegar gengur illa, þannig að þetta er góð vika fyrir okkur. Það er miklu skemmtilegra að sigla heim með 3 stig,“ bætti Todor við.

ÍBV skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og varðist vel í seinni hálfleik. Eyjaþjálfarinn vill þó ekki ljóstra upp hver leyndarmálið var við að landa þessum sigri.

„Ég ætla að hafa það fyrir mig hvernig planið var í seinni hálfleik, það eru fleiri leikir framundan. En það kom okkur ekki á óvart að Selfossliðið mætti ákveðnara inn í seinni hálfleikinn þar sem þær þurftu að skora. Við vorum tilbúnar í það sem þær voru að gera og það gekk bara vel,“ sagði Todor.

Þrátt fyrir sigurinn er ÍBV áfram í fallsæti, þar sem Tindastóll lagði Keflavík í kvöld. Todor segir allt opið í deildinni enn sem komið er.

„Þeir sem hafa fylgst með þessari deild vita að það eru margir leikir mjög jafnir, þannig að maður veit aldrei hvað bíður manns. Það er langbest að fókusa bara á næsta leik og reyna að gera sitt besta hvern einasta dag og í hverri viku. Það er bara áfram gakk. Við fáum Stjörnuna næst og það verður hörkuleikur,“ sagði þjálfari ÍBV að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka