Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, og betur þekktur sem Donni var skælbrosandi og hæst ánægður eftir sætan sigur Tindastóls á Keflavíkurstúlkum í Keflavík í 10.umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld.
Stelpurnar hans Donna sigruðu með einu marki gegn engu en það var Murielle Tiernan sem skoraði markið með laglegu skoti á 32.mínútu.
Stúlkurnar úr Skagafirðinum spiluðu öflugan og agaðan varnarleik en Keflavíkurstúlkur voru meira með boltann og fengu ekki mörg dauðafæri.
Donni var ánægður með vinnusemina í liðinu og sagði að liðið hefði lagt allt í leikinn og uppskáru eftir því. „Við vorum með einfalt og árangursríkt plan og það gekk frábærlega og ég er ótrúlega stoltur af stelpunum," sagði Donni.
Í síðari hálfleik var Tindastóll líklegra til að bæta við heldur en Keflavík að jafna.
Elísa Bríet Björnsdóttir átti skot í slánna á 82.mínútu og Murielle komst í hörkufæri þremur mínútum síðar þegar hún var ein gegn Veru Varis í marki Keflavíkur en Vera varði mjög vel.
Eflaust hefðu stelpurnar og stuðningsfólk Stólana viljað klára leikinn fyrr og andað léttar.
Donni sagði að það hefur verið pínu vandamál að klára færin.
„Við höfum fengið færi í öllum leikjum sem við höfum spilað og erum að vinna í að klára færin betur svo við getum klárað leiki aðeins betur. Við fengum dauðafæri á fyrstu tíu mínútunum (þegar Hugrún Pálsdóttir fer framhjá Veru Varis og setur boltann framhjá opnu marki).
Svo fáum við einn á móti markmanni og skot í slá sem var mögulega inni en maður sér það ekki nógu vel en heldur það alltaf (að boltinn fari inn fyrir línuna). Á meðan að Keflavík skapaði sér lítið sem ekkert, svona hálf færi hér og þar. Svo vissum við það þegar við erum marki yfir í seinni hálfleik þá myndi Keflavík koma sér framar á völlinn og við vissum að þá myndu opnast eyður fyrir okkur til að sækja í, sem við nýttum okkur.
Heilt yfir gekk leikplanið vel upp og stelpurnar stóðu sig stórkostlega og sýndu þessa faglegu og góðu kvenmennsku allan leikinn og ég gæti ekki verið ánægðari með þær," sagði Donni að lokum við blaðamann mbl.is hér suður með sjó.