Fátt var um fína drætti í Hafnarfirði þegar FH og Þróttur úr Reykjavík gerðu markalaust jafntefli í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld.
Liðin áttu sín upphlaup í fyrri hálfleiknum, sem var jafn og kaflaskiptur.
Besta færi fyrri hálfleiksins fékk Þróttarinn Tanya Boychuk á 37. mínútu en hún var alein á fjærstönginni eftir hornspyrnu Kötlu Tryggvadóttur en skaut framhjá.
Fá önnur upphlaup urðu að alvöru marktækifærum en hornspyrnurnar voru þó nokkrar. Liðin fóru inn í hálfleikinn jöfn og án marka.
Shaina Ashouri, í liði FH, var hvað mest ógnandi í síðari hálfleiknum en hún fékk nokkur ágætis færi.
Ashouri fékk svo dauðafæri á 86. mínútu þegar að Mackenzie George keyrði inn á teiginn með boltann og gaf hann svo út á Ashouri sem var með nánast opið mark fyrir framan sig. Hún setti hinsvegar boltann í Írisi Dögg Gunnarsdóttur, markvörð Þróttar, og þaðan rataði hann í horn.
FH er nú í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig en Þróttur er í fimmta með 15.
FH fær 1. deildarlið Víkings úr Reykjavík í heimsókn í næsta leik sínum, en um undanúrslitaleik í bikar er að ræða. Þróttarar fá Selfoss í heimsókn í næsta leik sínum í Bestu deildinni.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið