ÍBV lyfti sér upp úr fallsæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu með sigri 2:0 sigri á Selfossi á útivelli í kvöld. Sigurinn var langþráður en ÍBV hafði ekki unnið leik í deildinni síðan 15. maí.
Leikurinn fór vel af stað og bæði lið gerðu sig líkleg en þegar leið á fyrri hálfleikinn tóku Selfyssingar völdin og gerðu allt nema að skora mark. Það var því sárt fyrir þær þegar Olga Sevcova kom ÍBV yfir með frábæru skoti á 36. mínútu, þvert á gang leiksins.
Þremur mínútum síðar fengu Eyjakonur vítaspyrnu þegar dómari leiksins dæmdi hendi á Sif Atladóttur innan vítateigs. Eftir hörð mótmæli Selfyssinga þrumaði Þóra Björg Stefánsdóttir boltanum í netið.
Staðan var 0:2 í hálfleik og Eyjakonur lögðu seinni hálfleikinn hárrétt upp, lágu til baka og freistuðu þess að sækja hratt. Vörn ÍBV var vel skipulögð og Selfyssingar fundu engar leiðir til að koma boltanum í netið. Þær vínrauðu komust þó oft í álitlega stöðu og ekki virtist vanta annað en meiri grimmd inni í vítateignum til þess að binda enda á sóknirnar.
Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki í seinni hálfleik og Eyjakonur fögnuðu vel þegar flautað var af. Liðið hefur nú 10 stig í 8. sæti en gæti færst aftur niður í fallsæti eftir leik Keflavíkur og Tindastóls í kvöld. Selfoss er áfram á botninum með 7 stig.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.