Það er súrt

Þróttarinn Jelena Tinna Kujundzic og FH-ingurinn Shaina Ashouri í leiknum …
Þróttarinn Jelena Tinna Kujundzic og FH-ingurinn Shaina Ashouri í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Ég er ekki sáttur,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir markalaust jafntefli Hafnarfjarðarliðsins gegn Þrótti úr Reykjavík í tíundu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld.

Fyrir leikinn í kvöld hafði FH unnið síðustu sex leiki sína í deild og bikar, en nýliðunum var spáð falli af flestum miðlum og sérfræðingum. Eftir leik er FH í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig, þremur stigum frá toppnum. 

„Ég er ekki sáttur með eitt stig. Mér fannst að FH-liðið hefði átt að vinna þennan leik og það er súrt, en það gengur ekki alltaf allt upp. 

Það er búinn að vera góður stígandi í liðinu og framfarir í spilamennsku okkar. Það er þróun sem við viljum sjá og ég held að allir hafi séð mjög öflugt lið í hvítu inn á vellinum.“

Hafa markmiðin eitthvað breyst frá byrjun tímabils? 

„Nei alls ekki. Við förum í hvern leik til þess að vinna hann og svo sjáum við bara í lokinn hvað við söfnum mörgum stigum. Stöðutaflan í dag breytir engu um okkar markmið.“ 

FH fær 1. deildarlið Víkings úr Reykjavík í heimsókn í næsta leik sínum á föstudaginn kemur. Verður það í undanúrslitum bikarkeppninnar. 

„Það eru allir mjög spenntir og vel gíraðar í þann leik. Nú nýtum við dagana fram að leik mjög vel og liðið mætir dýrvitlaust í að fara alla leið,“ sagði Guðni að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka