„Þetta voru sanngjörn úrslit,“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar úr Reykjavík, eftir markalaust jafntefli Laugardalsliðsins gegn FH í tíundu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kaplakrikavelli í kvöld.
Eftir leik eru Þróttarar í fimmta sæti deildarinnar með 15 stig, fimm frá toppnum.
„Bæði lið fengu nokkur ágætis færi og Íris Dögg markvörður okkar varði frábærlega undir lokin sem hélt okkur inn í leiknum. Allt í allt fannst mér þetta vera sanngjörn úrslit.
Þetta var alltaf að fara að vera erfiður leikur, FH hafði unnið fjóra leiki í röð og hélt tvisvar hreinu í leiðinni. Svo að fara héðan með punkt er fínt.
Við eigum enn eftir að komast í okkar besta stand, tengja saman nokkra sigra sem ég held að muni gerast. Þetta er í lagi, við erum nálægt toppnum og töpuðum ekki í kvöld,“ sagði Nik um leikinn sjálfan.
Mjög skrítin dómgæsla
Nik var gagnrýninn á Aðalstein Heiðar Þorsteinsson, dómara leiksins.
„Hann var alveg að gefa aukaspyrnur, það var ekkert að því. En það var uppsöfnun brota og ósamræðið.
Hvernig það var bara eitt gult spjald, og jafnmörg utan vallar er alveg galið. Þú getur ekki gefið svona margar aukaspyrnur, þar sem sömu leikmennirnir eru að brjóta aftur og aftur og sleppa því að gefa gul spjöld.
Svo kemur Berglind Þrastardóttir í FH inná og fær strax gult spjald fyrir eitt brot, þetta er mjög skrítin dómgæsla.“
Sáu ekki hvora aðra
Þróttarar breyttu um treyju í hálfleik en í þeim fyrri lék liðið í bláu varatreyjunum en stelpurnar komu inná í klassísku rauðhvítu treyjunum í þeim síðari. Nik sagði breytinguna vera af því leikmennirnir sáu varla hvorn annan.
„Stúlkurnar gátu varla séð hvora aðra. Sólin með ljósbláa treyju á móti hvítri var erfið. Við áttum í erfiðleikum með það sama á útivelli gegn ÍBV en við erum að reyna að fylgja leiðbeiningum KSÍ um hvað treyju við eigum að nota í hvert skipti.
En í hálfleik ákváðum við að klæðast því sem var best fyrir okkur núna,“ sagði þjálfari Þróttar að lokum.