Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, var sáttur við sitt lið í dag en grautfúll yfir að hafa ekki náð í þrjú stig, þegar ÍBV kom í heimsókn á Selfoss í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Eyjakonur sigruðu 2:0.
„Mér fannst við spila alveg ótrúlega góðan fótbolta í dag. Við erum pínu vitlaus í varnarleiknum í fyrra markinu þeirra, Idun svindlar aðeins og heldur að hún þurfi ekki að vera nálægt nærstönginni. Síðan kemur þessi vítadómur sem mér fannst vera skrítinn, ég sé þetta ekki vel en dómarinn segist hafa verið í frábærri aðstöðu til að sjá að hún sé með hendina í ónáttúrulegri stöðu. Ég veit ekki hvað er náttúruleg staða fyrir honum,“ sagði Björn í samtali við mbl.is eftir leik.
ÍBV skoraði tvö mörk með stuttu millibili í fyrri hálfleik og það síðara kom úr vítaspyrnu eftir að Sif Atladóttir fékk boltann í hendina innan teigs af stuttu færi og virtist það vera strangur dómur.
„Fyrir utan það þá spiluðum við alveg feikilega góðan fótbolta og sköpuðum okkur helling af sénsum, sem er eitthvað sem við höfum átt í veseni með. Þetta er í rétta átt en það er auðvitað grautfúlt að tapa fyrir liði sem mér finnst að við eigum að vinna þegar við spilum svona. Þetta var bara leikur eins liðs þangað til þær komast yfir. Þær eru ótrúlega góðar í að snúa vörn í sókn hratt og nýta hraðann í Olgu og framherjinn þeirra er duglegur líka,“ sagði Björn ennfremur.
ÍBV lá til baka í seinni hálfleiknum og varði forskotið og það fór í taugarnar á Selfyssingum hversu hægt leikmönnum ÍBV gekk að koma boltanum í leik, enda lá þeim ekkert á.
„Þær fá endalausan tíma til að dóla sér og mér finnst skrítið að það sé ekkert gert í því. Dómarinn aðvarar aldrei markmanninn, sem tekur endalausan tíma í allt og ég veit ekki til hvers er verið að hafa þessa sex sekúndna reglu í fótbolta lengur, þegar markmenn standa með boltann í höndunum í hátt í mínútu. Ég hef fengið þau svör þegar ég hef spurt um þetta áður að viðkomandi dómari ætlaði ekki að vera maðurinn sem dæmir þetta í fyrsta skipti í langan tíma. Þetta er bara fáránlegt, það á bara að taka þessa reglu út ef dómararnir ætla ekki að fylgja henni eftir. Auðvitað nýta liðin sér þetta þegar það er ekki dæmt á þetta og ég er ekki gramur út í ÍBV eða Guðnýju fyrir að gera þetta. En þessi regla er óþörf,“ sagði Björn brúnaþungur.
Selfyssingar eru nú einar eftir á botni deildarinn með 7 stig en þrátt fyrir það er þjálfarinn bjartsýnn á að liðið nái að snúa genginu sér í vil.
„Við eigum tvo gríðarlega erfiða leiki framundan, fram að hléi sem verður gert þegar tveir af okkar leikmönnum fara á EM U19 í júlí. Við verðum bara að mæta með hausinn uppi og bringuna úti. Það er mikill munur á því hvernig við erum að spila núna miðað við hvernig við vorum að spila í upphafi móts. Við erum farin að þora að spila boltanum betur innan liðsins og erum að skapa okkur meiri hættu á sóknarhelmingi. Við erum líka þéttar varnarlega þó að við höfum verið að fá mörk á okkur,“ segir Björn og bætir við að andinn í hópnum sé góður.
„Það er eitthvað sem hefur einkennt Selfoss í langan tíma. Þær eru stoltar af því að bera merki félagsins á brjóstinu. Það verður engin uppgjöf hérna fyrr en það verður búið að flauta síðasta leikinn af og við ætlum okkur að vera komin ofar í töfluna þá.“