Murielle Tiernan reyndist hetja Tindastóls þegar liðið heimsótti Keflavík í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Keflavíkurvöll í Keflavík í 10. umferð deildarinnar í kvöld.
Þegar liðin mættust í 1.umferð í vor gerðu þau 0:0 jafntefli.
Leikurinn fór fram í ágætis veðri hér í Bítlabænum, grasið sæmilega grænt, 14 gráður, sól og smá vindur.
Jafnræði var með liðunum til að byrja með, Keflvíkingar þó meira með boltann.
Fyrsta alvöru leiksins kom á 11.mínútu þegar Hugrún Pálsdóttir leikmaður Tindastóls fékk boltann við vítateiginn, fór framhjá Veru Varis í marki Keflavík og skaut rétt framhjá opnu marki, dauðafæri!
Heimakonur svöruðu fyrir sig tveimur mínútum síðar með færi hinum meginn á vellinum. Sandra Voitane átti skot sem Monica Wilhelm varði útí teig og boltinn barst á Dröfn Einarsdóttur sem skaut rétt framhjá. Hörkufæri og þarna hefðu bæði lið auðveldlega getað verið búin að skora.
Á 32.mínútu kom fyrsta markið. Aldís María Jóhannsdóttir, leikmaður Tindastóls, kom sér í góða stöðu út á hægri kanti og sendi boltann á Murielle Tiernan sem kláraði vel í hægra hornið. Gestirnir komnir yfir, mögulega gegn gangi mála en svona er fótboltinn.
Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks tók Anita Lind Daníelsdóttir, hafsent Keflavíkurliðsins, aukaspyrnu hægra meginn við vítateig sem hún virtist ætla að senda fyrir en hamraði boltann í slánna. Þarna munaði mjóu og Keflvíkingar nálægt því að jafna.
En staðan var 0:1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var tíðindalaus framan af. Keflvíkingar voru meira með boltann en sköpuðu ekki mikið af færum.
Tindastólsstúlkur voru mjög skipulagðar í vörninni með þær Bryndísi Rut Haraldsdóttur og Gewndolyn Mummert í miðverðinum og treystu á skyndisóknir þar sem að að Murielle Tiernan, Krista Sól Nielsen og Aldís María Jóhannsdóttir voru öflugar.
Á 82.mínútu voru gestirnir úr Skagafirði nálægt því að tvöfalda forystuna. Murielle fékk sendingu, kassaði boltann á Elísu Bríet Björnsdóttur, sem átti hörkuskot í slánna og niður. Stólarnir óheppnar.
Þremur mínútum síðar komst Murielle svo í hörkufæri. Hún var komin ein í gegn og ætlaði að skjóta boltanum yfir Veru Varis í marki Keflavíkur en Vera varði gríðarlega vel og bjargaði liði sínu algjörlega.
Keflvíkingar reyndu að koma sér aftur inní leikinn og jafna en allt kom fyrir ekki og lokatölur hér í Keflavík 0:1 sigur gestanna í Tindastóli.
Eftir leikinn er Tindastóll með 11 stig í 8. sæti deildarinnar en Keflavík er í 7. sætinu með 12 stig.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.