Víkingar hafa fengið góðan liðsauka fyrir seinni hluta keppnistímabilsins í fótboltanum því landsliðsmaðurinn Aron Elís Þrándarson er kominn heim eftir langa dvöl erlendis og er genginn til liðs við uppeldisfélagið.
Hann hefur skrifað undir fjögurra ára samning við Víking.
Aron er 28 ára gamall miðjumaður sem lék með meistaraflokki Víkings frá 16 ára aldri og þar til hann gekk til liðs við Aalesund í Noregi í ársbyrjun 2015. Aron lék þá 25 leiki með Víkingi í úrvalsdeildinni og skoraði 7 mörk og þá skoraði hann 15 mörk fyrir Víkinga í 1. deildinni árin 2012 og 2013.
Hann lék með Aalesund í fimm ár, þrjú þeirra í úrvalsdeild og tvö í norsku B-deildinni. Frá 2019 hefur Aron síðan leikið með OB í dönsku úrvalsdeildinni, þar sem hann var meðal annars valinn leikmaður ársins 2021, en samningur hans við félagið rann út nú í lok tímabilsins í Danmörku.
Aron hefur leikið talsvert með íslenska landsliðinu undanfarin tvö ár en hann á 17 A-landsleiki að baki og hefur skorað eitt mark, sigurmark gegn San Marínó í júní á síðasta ári.