Sjö mörk Blika sem mæta Buducnost

Blikar fagna marki Höskuldar Gunnlaugssonar á Kópavogsvelli í kvöld.
Blikar fagna marki Höskuldar Gunnlaugssonar á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik tryggði sér í kvöld réttinn til að leika til úrslita í forkeppni Meistaradeildar karla í fótbolta með því að sigra Tre Penne frá San Marínó í undanúrslitaleik á Kópavogsvelli, 7:1.

Breiðablik mætir því Buducnost frá Svartfjallalandi í úrslitaleik forkeppninnar á Kópavogsvelli á föstudagskvöldið þar sem í húfi er sæti í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildarinnar.

Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvö markanna, Ágúst Eðvald Hlynsson tvö, Klæmint Olsen, Stefán Ingi Sigurðarson og Viktor Karl Einarsson eitt hver en Antonio Barretta skoraði mark Tre Penne.

Blikar byrjuðu leikinn af ágætis krafti og sköpuðu sér þrjú góð færi á fyrstu níu mínútunum. Eitt þeirra skilaði marki, á 6. mínútu. Ágúst Eðvald Hlynsson fékk þá sendingu upp að endamörkum vinstra megin og sendi inn í markteiginn þar sem Höskuldur Gunnlaugsson var mættur og skoraði, 1:0.

Blikar sóttu áfram og voru líklegir til að bæta við marki. Það kom á 25. mínútu þegar Davíð Ingvarsson sendi boltann fyrir markið frá vinstri. Hann hrökk út í teiginn á Ágúst Eðvald sem afgreiddi hann með skoti í stöng og inn, 2:0.

Þarna virtist aðeins spurning um hve stór sigurinn yrði en á 31. mínútu bitu leikmenn Tre Penne frá sér. Eftir aukaspyrnu kom fyrirgjöf frá vinstri og Antonio Barretta renndi sér á boltann í markteignum, 2:1.

Þetta jók greinilega sjálfstraust gestanna sem áttu nokkrar þokkalegar sóknartilraunir seinni hluta fyrri hálfleiksins. Leikurinn var spennandi í fimmtán mínútur.

En þegar komið var fram í uppbótartíma hans átti Oliver Sigurjónsson skot í stöng. Klæmint Olsen hirti frákastið og skoraði, 3:1, og þannig var staðan í hálfleik.

Viktor Karl Einarsson var nærri því að bæta við marki í byrjun síðari hálfleiks en Mattia Migani varði vel frá honum. En þrátt fyrir þunga sókn Blika gekk þeim illa að komast í skotfæri við vítateig Tre Penne.

Óskar Hrafn Þorvaldsson gerði þrefalda skiptingu á 63. mínútu og sendi meðal annars markahæsta mann Bestu deildarinnar, Stefán Inga Sigurðarson, inn á völlinn. Það skilaði sér á aðeins fjórum mínútum því á 67. mínútu átti einn varamannanna, Viktor Örn Margeirsson, góða sendingu fram völlinn á Stefán Inga. Hann lék að vítateignum og skaut föstu skoti í vinstra hornið niðri, 4:1.

Fimmta markið var sannkallað gjafamark á 74. mínútu. Markvörður Tre Penne átti misheppnaða sendingu við vítateiginn, Kristinn Steindórsson náði boltanum og renndi á Viktor Karl Einarsson sem skoraði einn gegn markverði, 5:1.

Og sjötta markið kom á 89. mínútu. Eftir aukaspyrnu Viktors Karls skallaði Viktor Örn inn að markinu þar sem Höskuldur fylgdi á eftir með skalla af stuttu færi. Hans annað mark, 6:1.

Í uppbótartímanum skoraði svo Ágúst Eðvald Hlynsson sitt annað mark með föstu skoti frá vítateig eftir sendingu Kristins Steindórssonar frá hægri, 7:1.

Breiðablik 7:1 Tre Penne opna loka
90. mín. Andrea De Falco (Tre Penne) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka