Knattspyrnukonan Anna Björk Kristjánsdóttir er gengin til liðs við Íslands- og bikarmeistara Vals.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Anna Björk, sem er 33 ára gömul, kemur til félagsins frá Inter Mílanó.
Hún er uppalin hjá KR í Vesturbænum en alls á hún að baki 143 leiki í efstu deild með KR, Stjörnunni og Selfossi þar sem hún hefur skorað 7 mörk.
Hún varð Íslandsmeistari með Stjörnunni árin 2011, 2013 og 2014. Þá varð hún þrívegis bikarmeistari með liðinu.
Varnarmaðurinn hefur einnig leikið með Örebro og Limhamn Bunkeflo í Svíþjóð, PSV í Hollandi og Le Havre í Frakklandi á atvinnumannaferlinum og spilað samtals 258 deildaleiki á ferlinum. Þá á hún að baki 44 A-landsleiki fyrir Ísland.
Anna er annar leikmaðurinn sem Valskonur fá í sumar úr atvinnumennsku erlendis en Berglind Rós Ágústsdóttir er einnig komin á Hlíðarenda eftir að hafa leikið með Huelva á Spáni í vetur. Þær verða löglegar með Valsliðinu þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður þann 18. júlí.