Veit ekki hvort það sé nógu gott

Höskuldur Gunnlaugsson í leiknum í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks sagði eftir sigurinn á Tre Penne, 7:1, í undanúrslitum forkeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld að hann væri mjög ánægður með frammistöðu liðsins.

„Þetta er fyrsti Meistaradeildarleikurinn sem ég tek þátt í og fyrsti Meistaradeildarsigurinn, þannig að maður virðir úrslitin, sama hver andstæðingurinn er. Þetta er alltaf „tricky", spennustigið er alltaf hátt við svona aðstæður. Þetta er lítil útsláttarkeppni sem við erum í núna þannig að það tekur smávegis á taugarnar. 

En mér fannst við heilt yfir gera þetta af mikilli fagmennsku. Fyrst þegar við fengum á okkur markið og staðan var 2:1, og það eftir fyrirgjöf sem var að bregðast okkur – ég er ánægður með hvernig við brugðumst við því. Það er gott að við hristum það af okkur og spýttum bara í. Ég er mjög stoltur af liðinu," sagði Höskuldur við mbl.is eftir leikinn.

Mikilvægt að skora snemma

Höskuldur skoraði sjálfur fyrsta mark leiksins strax á sjöttu mínútu og sagði að það hefði verið mjög mikilvægt.

„Já, það braut ísinn. Okkur hefur vantað að undanförnu að skora snemma í leikjum, það hafði verið okkar einkennismerki í langan tíma að keyra á mótherjana og brjóta ísinn, þannig að það var hrikalega sætt og gott fyrir andlegu hlið liðsins að skora þetta mark strax í byrjun.

Þegar við náðum svo fjórða markinu um miðjan seinni hálfleik var þetta í öruggri höfn. Ég er ánægður með að við skyldum ekki hætta þá,  við héldum uppi sama hraða, fundum að þeir voru orðnir þreyttir. Mennirnir sem komu inn hjá okkur gerðu mjög vel," sagði Höskuldur en Stefán Ingi Sigurðarson skoraði eitt mark og þeir Kristinn Steindórsson og Viktor Örn Margeirsson lögðu upp tvö mörk hvor. Þeir þrír komu allir inn á sem varamenn um miðjan síðari hálfleik.

Kveikir vonandi í Kidda

Með mörkunum tveimur er Höskuldur orðinn markahæstur leikmanna karlaliðs Breiðabliks í Evrópukeppni með fimm mörk samtals en áður höfðu Kristinn Steindórsson og Ellert Hreinsson skorað fjögur Evrópumörk fyrir félagið.

„Já, er það svoleiðis? Ég veit ekki hvort það sé nógu gott í sögulegu samhengi að einhver bakvörður sé kominn í þá stöðu. Það kveikir vonandi í Kidda (Kristni Steindórssyni), nú skorar hann tvö í næsta leik! En þetta er skemmtilegt, ég tek því," sagði Höskuldur.

Davíð Ingvarsson reynir að komast á milli tveggja leikmanna Tre …
Davíð Ingvarsson reynir að komast á milli tveggja leikmanna Tre Penne á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vitum að þetta verður hörkuleikur

Buducnost frá Svartfjallalandi er mótherji Breiðabliks í úrslitaleiknum á Kópavogsvelli á föstudagskvöldið Höskuldur sagðist hafa fylgst með leik Svartfellinganna gegn Andorraliðinu fyrr í dag en hann endaði 3:0 fyrir Buducnost.

„Já, ég gerði það, svona með öðru auganu. Það eru einhverjar breytingar á liðinu hjá þeim en við vitum samt hvað þeir standa fyrir, í hverju þeir eru góðir og þeir gerðu okkur lífið leitt hérna á Kópavogsvelli í fyrra. Við þurftum heldur betur að berja nógu oft á virkið þar til það hrundi.

Við vitum að þetta verður hörkuleikur og það er gott að vita það fyrirfram. Þá verður ekkert vanmat og engin værukærð, við vitum að þetta er góður andstæðingur og erfiður," sagði fyrirliðinn.

Smá æsingur setur okkur á tærnar

Talsverður hasar var í fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli í fyrra þegar þrjú rauð spjöld fóru á loft, tvö á leikmenn Buducnost og eitt á þjálfarann. Höskuldur tók undir að það væri rígur á milli liðanna af þessum sökum.

Já, það er þannig, pottþétt, sem er bara skemmtilegt. Ég fagna því, smá æsingur setur okkur bara á tærnar þannig að þetta verður hörkuleikur. Við ætlum að sjálfsögðu áfram, fókusinn okkar er á að fara áfram í Meistaradeildina. Við erum búnir með 50 prósent af því verkefni, nú er bara að klára seinni hlutann á föstudagskvöldið," sagði Höskuldur Gunnlaugsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert