Framarar höfðu stutta viðdvöl í fallsæti Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld því eftir að hafa lent þar með sigri ÍBV á KA komu þeir sér upp í áttunda sætið með því að sigra HK, 3:2, á Framvellinum í Úlfarsárdal.
Framarar eru komnir með 14 stig í áttunda sæti deildarinnar en HK er áfram með 16 stig og sígur niður í sjöunda sætið.
HK hóf leikinn undan strekkingsvindi og var talsvert meira með boltann framan af hálfleiknum. Það skilaði þó engum færum og aðeins þrjú langskot Ívars Arnar Jónssonar að marki Fram var eina ógnunin við mörk liðanna fyrstu 25 mínúturnar.
Fred Saraiva átti fyrstu marktilraun Fram á 28. mínútu þegar hann skaut yfir mark HK eftir hornspyrnu.
En þegar hvorugt liðið hafði gert sig líklegt til að skora kom atvik fyrri hálfleiksins á 39. mínútu. Fred sendi boltann fyrir mark HK þar sem hann fór í hönd Ahmads Faqa miðvarðar Kópavogsliðsins. Vítaspyrna og úr henni skoraði Fred af öryggi, 1:0.
Örvar Eggertsson átti bestu tilraun HK í fyrri hálfleiknum rétt fyrir hlé þegar hann átti fast skot rétt utan vítateigs í hliðarnetið á marki Framara. Staðan var því 1:0 í hálfleik.
HK var ekki lengi að jafna gegn vindinum í síðari hálfleik því á
54. mínútu skoraði Atli Hrafn Andrason með skalla af stuttu færi eftir að Hassan Jalloh kom boltanum fyrir markið, 1:1.
Framarar voru snöggir að ná forystunni á ný því á 56. mínútu sendi Tiago Fernandes boltann inn í vítateig HK þar sem Guðmundur Magnússon stakk sér fram og skoraði með skalla, 2:1.
Á 63. mínútu varð staða Framara enn vænlegri. Orri Sigurjónsson sendi boltann inn í vítateig utan af vinstri kanti og hann sigldi alla leið yfir Arnar Frey markvörð HK og í netið, 3:1. HK-ingar mótmæltu og töldu að brotið hefði verið á Örvari Eggertssyni í aðdraganda marksins en Sigurður Hjörtur Þrastarson dómari var ekki sammála því.
Guðmundur Magnússon var nærri því að bæta við marki á 70. mínútu þegar hann skaut framhjá marki af stuttu en þröngu færi og mínútu síðar varði Ólafur Íshólm í marki Fram vel gott skot frá Ívari Orra Gissurarsyni.
HK reyndi að sækja og uppskar mark á 88. mínútu þegar Ahmad Faqa skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá Marciano Aziz, 3:2.
Þar með voru lokamínúturnar hörkuspennandi en Framarar náðu með klókindum að halda boltanum á vallarhelmingi HK meiri hluta sjö mínútna uppbótartímans og halda þannig fengnum hlut.
Eyþór Aron Wöhler fékk þó eitt færi undir lokin þegar hann skaut rétt yfir mark Fram frá vítateig.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í föstudagsblaði Morgunblaðsins.