Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK sagði eftir ósigurinn gegn Fram í Bestu deild karla í fótbolta í Úlfarsárdal í kvöld, 3:2, að einstaklingsmistök hefðu verið liðinu dýr.
„Mér fannst við byrja seinni hálfleikinn mjög öflugt og við náðum að jafna metin fljótlega. Svo fáum við á okkur tvö ódýr mörk og í raun komu öll mörkin þeirra þrjú eftir okkar einstaklingsmistök.
Við hleypum augljóslega alltof mörgum mörkum inn, við getum ekki endalaust skorað til að svara því, og við verðum að fara að bæta okkur varnarlega.
Mér fannst við samt stjórna leiknum í seinni hálfleiknum, gegn vindinum, virkilega vel, mun betur en við gerðum í fyrri hálfleik. Yfirleitt heldur maður að það sé betra að vera með vindinn í bakið en við komumst einhvern veginn aldrei í neinn takt í fyrri hálfleik. Það var í raun ekkert að frétta hjá báðum liðum.
Það var klaufalegt hjá okkur að fá þessa vítaspyrnu á okkur í fyrri hálfleiknum. Ahmad rann og fékk boltann í höndina, en við náðum samt að jafna leikinn. Síðan vorum við sjálfum okkur verstir og köstuðum þessu í raun frá okkur. Þetta er einbeitingarleysi sem við þurfum að laga," sagði Leifur Andri.
HK-ingar mótmæltu þriðja markinu sem Fram skoraði og komst í 3:1 og töldu að brotið hefði verið á Örvari Eggertssyni í aðdraganda þess.
„Það má vissulega setja spurningarmerki við þetta mark. Það virtust allir stoppa á vellinum, dómarinn var með flautuna upp í sér og fjórði dómarinn var búinn að kalla brot. En svo var ekkert flautað.
En þegar upp er staðið verðum við sjálfir að gera betur og við getum ekki alltaf litið á dómarana. Við fáum einfaldlega of mörk á okkur. Burtséð frá því erum við í flottri stöðu, spilum flottan fótbolta, og þurfum að finna lausnir á þessu, halda einbeitingu í 90 mínútur. Það má ekki slokkna á okkur eins og gerðist í tveimur til þremur fyrirgjöfum í kvöld. Við verðum að fara að ná þeim takti að halda oftar hreinu," sagði Leifur Andri Leifsson.