„Hrikalega gaman að skora fyrsta markið sitt“

Eyjamaðurinn Hermann Þór Ragnarsson í baráttunni í Vestmannaeyjum í kvöld.
Eyjamaðurinn Hermann Þór Ragnarsson í baráttunni í Vestmannaeyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tóku á móti KA í Bestu deild karla á Hásteinsvelli í dag. Leikurinn endaði með 2:0 sigri heimanna, en Bjarki Björn og Oliver Hreiðarsson skoruðu mörk Eyjamanna.

Bjarki Björn spilaði allan leikinn fyrir ÍBV í dag og átti ágætis leik þrátt fyrir að aðstæður hafi verið erfiðar fyrir bæði lið. Hann var að vonum kátur með úrslitin og markið, sem var hans fyrsta mark í efstu deild.

„Hrikalega gaman að skora fyrsta markið sitt. Kannski búinn að fá fá tækifæri í sumar og gott að nýta þau þegar maður fær að byrja loksins inn á,“ sagði Bjarki með bros á vör.

Aðstæður voru með engu móti góðar í dag og virkilega miklar hviður settu sitt mark á leikinn. Það var ljóst allan leikinn að liðin áttu erfitt með spila sóknarleik í þessum aðstæðum.

„Maður reynir bara að gíra sig upp. Þetta er ekkert fallegasti fótboltinn [í svona aðstæðum], en þá skiptir seinni boltinn bara meira máli. Við vorum bara klókir. Við vorum ekkert að opna okkur mikið. Sóttum bara nokkuð fámennir í skyndisóknum. Um leið og við brutum ísinn var þetta nokkuð þægilegt einhvern veginn,“ sagði Bjarki.

Erfiðar lokamínútur

Eyjamenn eru orðnir ansi kunnugir rauðum spjöldum í sumar og fengu að líta sitt fjórða í Bestu deildinni í sumar þegar Richard King var rekinn útaf á 71. mínútu með sitt annað gula spjald. Eyjamenn litu þó aldrei út fyrir að vera manni færri í dag.

„Þetta var kannski svolítið erfitt síðustu tuttugu, einum færri. Við gerðum þetta hrikalega vel, þéttir til baka og nýttum hraðann okkar frammi og gáfum fá færi á okkur,“ sagði Bjarki.

Bjarki kom til ÍBV frá Víkingum á láni í vetur. Hann hefur ekki fengið mikið af mínútum inni á vellinum hingað til en kveðst líða vel í Eyjum og horfir bjartur á framhaldið.

„Mér líður mjög vel hérna. Gaman ef maður fær að spila meira núna. Það er bara vonandi að það haldi áfram og við förum aðeins upp töfluna,“ sagði Bjarki Björn, miðjumaður Eyjamanna, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka