KA heimsóttu Vestmannaeyjar í dag þar sem þeir mættu ÍBV í Bestu deild karla í knattspyrnu. Leikurinn endaði með 2:0 sigri heimamanna, en Oliver Hreiðarsson lagði upp og skoraði fyrir Eyjamenn með fjögurra mínútna millibili eftir rúmlega klukkustunda leik.
Fyrir leikinn voru Eyjamenn í næstneðsta sæti með 10 stig og þurftu öll stigin á heimavelli í dag. KA voru hinsvegar í því fimmta með 17 stig.
Ansi harðar hviður settu mikið mark á leikinn og heilt yfir var lítið um gæðamikinn sóknarleik hjá liðunum. KA-menn réðu miðsvæðinu en aðstæðurnar hentuðu leikáætlun heimamanna ef til vill betur. Í fyrri hálfleik kom ekkert marktækifæri, að undanskildum skotum fyrir utan teig hjá KA-mönnum, sem rötuðu alltaf framhjá.
Eftir um 40 mínútur bjuggu KA-menn til ágætis stöðu en þegar kom að skotinu náði það aldrei að markinu. Staðan 0:0 í hálfleik og mjög lítið að frétta í leiknum sóknarlega.
Heilt yfir var síðari hálfleikur líkur þeim fyrri, fyrir utan fimm mínútna kafla þar sem Oliver Heiðarsson, sóknarmaður ÍBV, gerði útaf við leikinn.
Á 62. mínútu vann Elvis, varnarmaður ÍBV, boltann fyrir Eyjamenn eftir sókn KA og keyrði upp að miðlínu. Hann sá Oliver Hreiðarsson á harðaspretti og setti boltann upp hægri kantinn í svæði fyrir hann. Oliver virtist í fyrstu ætla að tapa boltanum en hélt honum þó með herkjum og kom sér frá varnarmanninum með hraðabreytingu. Við vítateiginn spyrnti hann loks boltanum fast fyrir markið. Þar var Bjarki Björn Gunnarsson, miðjumaður ÍBV, mættur og gerði vel að beina boltanum inn í mark gestanna. Heimamenn búnir að brjóta ísinn, 1:0.
Það voru ekki liðnar fjórar mínútur frá marki Bjarka Björns þegar Oliver tvöfaldaði forystu heimamanna. Aftur fékk hann boltann upp kantinn frá Elvis. Hlaup hans og hraðabreyting framhjá varnarmanni KA voru keimlík þeim í fyrra markinu, nema nú nelgdi Oliver boltanum sjálfur inn á nærstöngina og upp í þaknetið. 2:0 fyrir heimamönnum og Oliver, sem hafði annars lítið sést í leiknum, búinn að gera útaf við KA-menn með stuttu millibili.
Þegar um tuttugu mínútur lifði leiks fékk Richard King sitt annað gula spjald og þar með rautt. Einhver kítingur milli leikmanna skapaðist við miðlínuna og hann gerði sér ferð þangað og gerði eitthvað sem Twana Khalid, sem dæmdi leikinn heilt yfir frábærlega, var ekki ánægður með. Richard verður því í banni í næsta leik Eyjamanna gegn Fram.
KA menn litu aldrei út fyrir að vera manni fleiri síðustu mínúturnar og ÍBV sigldu sigrinum heim. Góður heimasigur ÍBV staðreynd sem fara upp í áttunda sæti. KA-menn gætu færst neðar í töflunni í kvöld.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.