KR vann sinn annan leik í röð í Bestu deild karla í knattspyrnu þegar liðið tók á móti Keflavík í 13. umferð deildarinnar á Meistaravöllum í Vesturbæ í kvöld.
Liðin mættust síðast í annarri umferð á gervigrasvellinum við hlið Reykjaneshallar þar sem KR vann góðan 2:0 útisigur.
Talsverður vindur var á vellinum þegar Elías Ingi Árnason flautaði til leiks.
Lið KR var meira með boltann í byrjun leiks og átti Atli Sigurjónsson frábært marktækifæri á 13.mínútu. Atli tók aukaspyrnu 25-30 metra frá marki og þrumaði boltanum upp í nær hornið vinstra meginn og boltinn fór í stöngina fyrir aftan markið og leit út eins og glæsimark. En svo var ekki.
Þremur mínútu síðar átti Aron Þórður Albertsson, miðjumaður KR, hörkuskot vinstra meginn við vítateig og boltinn fór rétt framhjá fjærstöng.
Á 21.mínútu átti Jóhannes Kristinn Bjarnason frábært skot vinstra meginn utan teigs sem Mathias Rosenörn í marki Keflavíkur varði vel. Tveimur mínútum síðar gerðist umdeilt atvik. Frans Elvarsson, sem spilaði óvenju framarlega í liði Keflavíkur, fékk boltann inn fyrir vörn KR og var kominn í upplagt færi en þá flaggaði aðstoðardómari rangstöðu.
Ég gat ekki betur sér hér úr fréttamannastúku en að Frans væri rétt stæður en dómarinn dæmdi rangstöðu. Því miður er ekki hægt að skoða atvikið aftur enda er ekki VAR (myndbandsdómgæsla) á Íslandi. Þarna sluppu KR-ingar.
KR-ingar héldu svo áfram mikilli sóknarlotu og reyndu að nýta sér meðvindinn. Sigurður Bjartur Hallsson átti tvo skalla með stuttu millibili, það fyrra var dauðafæri á 26.mínútu eftir sendingu frá Kristni Jónssyni sem átti stórleik í kvöld.
Kristinn fékk sjálfur hörkufæri á 35.mínútu þegar hann átti skot yfir mark Keflavíkur eftir sendingu Atla Sigurjónssonar. Atli fékk boltann við endamörk inn í teig og sendi fastann bolta á Kristinn sem renndi sér í boltann og boltinn fór yfir markið.
KR héldu áfram að fá færi og á 37.mínútu var Theodór Elmar með boltann við vítateig Keflvíkinga og rennir honum svo út á Atla Sigurjónsson sem var í upplögðu skotfæri hægra meginn rétt utan vítateigs. Atli skaut á nærstöngina en rétt framhjá.
Á 42.mínútu náðu KR-ingar loksins að brjóta ísinn. Theodór Elmar Bjarnason ætlaði koma með sendingu inní teig en boltinn fór í varnarmann og þaðan til Sigurðar Bjarts Hallsonar við endamörk inn í teig. Sigurður sendi boltann inn að marki, framhjá Mathias í markinu og þar var
Atli Sigurjónsson sem skoraði í autt markið. 1:0 fyrir KR. Strax í næstu sókn voru Keflvíkingar líklegir til að jafna leikinn. Dagur Ingi Valsson átti fast skot úr þröngu færi en Aron Snær Friðriksson varði vel í marki KR. Í seinni hálfleik voru KR-ingar meira með boltann og voru mikið í færum þrátt fyrir að spila á móti vindi.
Jóhannes Kristinn Bjarnason átti frábært skot á 54.mínútu eftir sendingu Ægis Jarls Jónassonar. Ægir Jarl var með boltann við vítateig Keflavíkur og lagði hann svo út til hægri á Jóhannes sem átti þrumuskot sem Mathias varði í horn.
Uppfrá þessu hófst mikil skotárás frá KR-ingum sem endaði með að Ægir fékk boltann vinstra meginn í teignum eftir sendingu frá Atla Sigurjónssyni og "klippti" boltann á markið en Mathias Rosenörn varði vel í marki Keflavíkur. Keflvíkingar reyndu að svara fyrir sig en án árangurs.
Það var síðan á 77.mínútu þegar KR náði að tvöfalda forystu sína. KR fékk hornspyrnu og Finnur Tómas Pálmason skallaði að marki en Mathias Rosenörn varði, Ægir Jarl tók frákastið og skoraði laglegt mark. 2:0 fyrir heimamenn og annar heimasigurinn í röð í augnsýn.
Atli Sigurjónsson fékk svo dauðafæri 10 mínútum síðar en Mathias Rosenörn varði en og aftur vel í markinu. Leiknum lauk með öruggum 2:0 sigri KR-inga og þeir eru komnir í 5.sæti með 18 stig en Keflavík er sem fyrr á botninum með 8 stig.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á föstudaginn.