Markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir hefur ákveðið að taka hanskana tímabundið af hillunni til þess að hjálpa Grindavík gegn Augnabliki þegar liðin mætast í 1. deild kvenna í knattspyrnu í Grindavík á morgun.
Þetta tilkynnti Grindavík á samfélagsmiðlum sínum í kvöld en Sandra, sem er 36 ára gömul, lagði hanskana nokkuð óvænt á hilluna í mars á þessu ári.
„Báðir markverðir Grindavíkur eru frá vegna meiðsla og nýtti Grindavík sér heimild í reglugerð hjá KSÍ á að fá markvörð á neyðarláni af þeim sökum,“ segir í færslu Grindvíkinga á Facebook.
„Sandra ætlar tímabundið að taka hanskanna af hillunni til að aðstoða Grindavík. Heiðdís Emma Sigurðardóttir, sem leikið hefur í marki Grindavíkur í sumar, er frá eftir að hafa hlotið tvö höfuðhögg með stuttu millibili. Hún verður frá keppni næstu daga.
Chanté Sandiford er einnig frá vegna veikinda sem hún hefur verið að glíma við og halda henni utan keppnisvallar,“ segir ennfremur í færslunni.