Slík frammistaða ekki í boði aftur

Hlynur Atli Magnússon í baráttu við Örvar Eggertsson sóknarmann HK …
Hlynur Atli Magnússon í baráttu við Örvar Eggertsson sóknarmann HK í leiknum í Úlfarsárdal í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Hlynur Atli Magnússon fyrirliði Fram sagði eftir sigurinn á HK, 3:2, í Bestu deild karla í fótbolta í Úlfarsárdal að leikmenn liðsins hefðu verið staðráðnir að sýna sitt rétta andlit í kvöld eftir slæman skell í síðasta leik.

„Þetta var virkilega mikilvægur sigur og við þurftum svo sannarlega á þessum stigum að halda eftir afhroðið í síðasta leik, gegn FH í Kaplakrika. Þar vorum við sjálfum okkur verstir en í dag sýndum við allt annað hugarfar og liðsframmistöðu sem skilaði okkur þremur mjög mikilvægum stigum," sagði Hlynur Atli við mbl.is eftir leikinn.

Fram tapaði umræddum leik gegn FH, 4:0, og Hlynur tók vel undir þau orð að það hefði verið sennilega verið versti leikur liðsins á tímabilinu.

„Ég hugsa það, já. Ég þarf að leita langt aftur í tímann til þess að finna leik þar sem manni leið svona illa. Við áttum ekki neitt skilið úr þeim leik, kúdos á FH-ingana og allt það, en við mættum ekki til leiks gegn þeim. 

Menn voru algjörlega staðráðnir í því að svara fyrir þann leik og í aðdraganum að þessum leik gegn HK töluðum við um að þannig frammistaða væri einfaldlega ekki í boði. Ekki fyrir neinn, ekki fyrir stuðningsmenn, ekki fyrir okkur sjálfa, ekki fyrir þá sjálfboðaliða og aðra sem taka þátt í þessu í kringum okkur, við gætum ekki boðið neinum upp á þetta.

Við vorum staðráðnir í að gera betur í dag og við gerðum það, þó þetta hafi ekki verið allar fegursti boltinn, þá endaði þetta okkar megin í dag," sagði Hlynur.

Vindurinn hafði talsverð áhrif á leikinn en Framarar léku  gegn honum í fyrri hálfleik og undan vindi í þeim síðari.

„Þetta minnti dálítið á rokleik í Eyjum, það var þungi á annað markið, en við leystum það ágætlega. Fyrri hálfleikurinn var eins og hann var á meðan við vorum á móti vindi en við gátum spilað meira okkar bolta í þeim seinni og uppskárum þá tvö mörk.

„Þetta var heldur betur dýrmætur sigur og við tökum þetta með okkur af fullum þunga í næsta leik. Við þurfum að byggja ofan á þetta," sagði Hlynur.

„Þriðja markið var gríðarlega mikilvægt, þegar við komumst í 3:1. Það er svo þungt að fá á sig þriðja markið í svona leik og þá hefði ég viljað sjá aðeins meira drápseðli í okkur, fylgja því eftir með fjórða markinu og gera út um leikinn. En þetta var tæpt, HK refsaði okkur og minnkaði muninn í 3:2. 

Við gerðum okkur þetta því erfitt fyrir á lokakaflanum en náðum að klára þetta að lokum. Okkur tókst að halda boltanum vel á þeirra vallarhelmingi sem var gott," sagði Hlynur.

Fram er þá komið upp í áttunda sætið með 14 stig en liðið var dottið niður í fallsæti þegar flautað var til leiks í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka