Stefán á förum en ekki vitað hvenær

Stefán Ingi Sigurðarson er á leiðinni til Belgíu.
Stefán Ingi Sigurðarson er á leiðinni til Belgíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Stefán Ingi Sigurðarson er að öllum líkindum á förum frá Breiðabliki til belgíska félagsins Patro Eisden. 

Þetta fékk mbl.is staðfest í samtali við Eystein Pétur Lárusson, framkvæmdastjóra Breiðabliks, og Karl Daníel Magnússon deildarstjóra afreksstarfs félagsins. Gátu þeir þó ekki staðfest nákvæmlega hvenær.

„Það er ekkert leyndarmál að það séu allar líkur á því að hann fari frá Breiðabliki en það er ekki búið að klára alla hluti,“ sagði Eysteinn og vísaði mbl.is svo til Karls. 

„Viðræðurnar á milli Breiðabliks og belgíska félagsins eru langt komnar. Félagið hefur fengið heimild til þess að ræða við leikmanninn og semja um hans kaup og kjör og við vitum í raun og veru ekki hver staðan sé þar.“

Orðrómar ganga nú um að síðasti leikur Stefáns Inga sé gegn Buducnost frá Svart­fjalla­landi í úr­slita­leik for­keppn­i Meistaradeildarinnar á Kópa­vogs­velli á föstu­dags­kvöldið þar sem í húfi er sæti í fyrstu um­ferð undan­keppni Meist­ara­deild­ar­inn­ar.

Karl segist ekki geta staðfest hvort um verði að ræða síðasta leik Stefáns, en félagið hefur ekki rætt um endanlegar dagsetningar.

Ætla að finna rétta manninn

Varðandi eftirmann segir Karl félagið fara varlega í það, og ætli sér að finna „rétta manninn,“ en ekki bara hvern sem er. 

Varðandi sóknarmanninn Eyþór Aron Wöhler, sem er á láni hjá HK frá Breiðabliki, segir Karl ekki enn vera búið að taka ákvörðun um að endurkalla hann.

Eyþór Aron Wöhler, til hægri, gæti snúið aftur í júlí.
Eyþór Aron Wöhler, til hægri, gæti snúið aftur í júlí. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka