Erfitt að skilja við Breiðablik

Stefán Ingi Sigurðarson fagnar marki sínu ásamt Andra Rafni Yeoman.
Stefán Ingi Sigurðarson fagnar marki sínu ásamt Andra Rafni Yeoman. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er erfitt að skilja við Breiðablik,“ sagði Stefán Ingi Sigurðarson í samtali við mbl.is eftir 5:0-sigur Kópavogsliðsins á Buducnost frá Svartfjallalandi í úrslitaleik forkeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. 

Með sigr­in­um mæt­ir Breiðablik Írlands­meist­ur­um Shamrock Rovers í fyrstu um­ferðinni í júlí. Skyldu Blikar vinna það ein­vígi mæt­ir Kópa­vogsliðið Norður­landa­stór­veld­inu FC Kö­ben­havn. 

Stefán Ingi lék sinn síðasta leik, í bili, fyrir uppeldisfélag sitt í kvöld en hann fer á sunnudaginn í læknisskoðun hjá belgíska félaginu Patro Eisden. Stefán toppaði lokaleik sinn með marki. Hann var sáttur með frammistöðuna.

„Mér fannst við spila af mikilli ákefð og gerðum það vel. Það var mikil orka í okkur í fyrri hálfleik og það sást. 

Þeir eru náttúrlega á undirbúningstímabili og við á miðju tímabili þannig það sást að þeir urðu svolítið þreyttir í fyrri hálfleik og við náðum að skora snemma og þá slokknar á þeim. Við gerðum það sem við vorum beðnir um að gera vel og það uppskar 5:0.

Það er alltaf gott að kæfa lið en sérstaklega í Evrópuleikjum. Það er eitthvað sem við höfum ekki náð í deildinni hingað til á tímabilinu, kæfa lið í fyrri hálfleik og koma okkur í góða stöðu í þeim síðari. 

Í Evrópu þar sem þetta er bara einn leikur þá þarf ekki nema eitt mark til þess að lið komist á bragðið og fái von. Þannig það er gott að halda hreinu og kæfa þá snemma,“ sagði Stefán um leikinn. 

Sáttur með sjálfan sig

Stefán Ingi Sigurðarson skoraði tíu mörk í þrettán leikjum í Bestu deildinni á tímabilinu og tvö í Evrópukeppni, draumatímabil hjá kappanum. Hann segir hafa ætlað sér þennan árangur. 

„Þetta er samkvæmt markmiðum mínum. Ég setti mér mjög skýr markmið þegar ég kom heim í desember. Mér fannst ég hafa náð flest öllum markmiðum sem ég setti mér. 

Það er erfitt að ætla að segja að maður ætlast til þess en ég set mér sjálfur há markmið og mig langar að gera góða hluti. 

Mér finnst ég hafa staðið mig vel á þessu tímabili og er rosa sáttur með það, en já þetta er eitthvað sem ég ætlaði mér,“ bætti Stefán Ingi við um frammistöðu sína. 

Flýgur út á sunnudaginn.

Er þetta þinn síðasti leikur í treyju Breiðabliks?

„Já, í bili. Ég flýg út á sunnudaginn og fer í læknisskoðun hjá Patro Eisden í Belgíu, þannig þetta var minn síðasti leikur fyrir Breiðablik í bili. 

Ég er að sjálfsögðu spenntur fyrir komandi verkefni en það er líka erfitt að skilja við Breiðablik á svona tímum, í raun og veru fyrsta tímabilið mitt með uppeldisfélaginu. Það er búið að ganga vel og búið að vera rosa gaman, ég er búinn að bæta mig mikið sem leikmaður og liðsfélagi þannig það er erfitt að skilja við strákana núna. 

En auðvitað er mjög spennandi að fara út í akkúrat lið sem er ekkert það þekktasta. Það er aftur á móti á mikilli uppleið og með mér og öðrum leikmönnum sem koma inn þá heldur þessi uppleið vonandi áfram.

Nýju eigendur félagsins eru að breyta félaginu og gera það mjög fagmannalegt, svolítill atvinnumannafílingur, ég hef séð það í gegnum fundi við þá og í myndböndum sem ég hef fengið send. 

Þeir eru nýbúnir að ráða sóknarmannsþjálfara, það verður mjög spennandi fyrir mig að geta lært af honum. Hann á að baki fimmtíu landsleiki fyrir Belgíu sem heilar líka.“

Er markmiðið að fara beinustu leið upp?

Það hefur eitthvað verið rætt. Öll lið vilja komast upp en það er kannski ekki alveg raunhæft að fara beint upp þegar þú ert nýkominn í deildina, en innan tveggja ára stefnir félagið að sjálfsögðu upp. Þetta er spennandi verkefni sem ég vil vera partur af,“ sagði Stefán að lokum í samtali við mbl.is. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert