Mér þykir vænt um Stefán

Blikar fóru létt með Buducnost.
Blikar fóru létt með Buducnost. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var að vonum sáttur með sína menn eftir 5:0-sigur á Buducnost frá Svartfjallalandi í úrslitaleik forkeppni Meistaradeildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. 

Með sigrinum mætir Breiðablik Írlandsmeisturum Shamrock Rovers í fyrstu umferðinni í júlí. Skyldu Blikar vinna það einvígi mætir Kópavogsliðið Norðurlandastórveldinu FC Köbenhavn. 

Þetta var hungrið sem hefur vantað

Óskar var sáttur með frammistöðu sinna manna og sagði liðið hafa sýnt hungrið sem hann vill sjá, og hefur vantað sumstaðar upp á síðkastið. 

„Ég ætla nú ekki að segja að ég hafi búist við þessum yfirburðum og þessum úrslitum. En vissulega hafði ég tröllatrú á því að við gætum og myndum vinna þennan leik, það var alltaf markmiðið sem við fórum inn í leikinn með en ég ætla ekki að þykjast hafa séð þetta fyrir. 

Við mættum mjög grimmir til leiks og með mikla ákefð í varnarleiknum og það skilaði sér og smitaðist inn í sóknarleikinn. Mér finnst við stundum hafa verið að velja okkur leiki í sumar, við höfum verið góðir í stóru leikjunum, góðir á móti Víkingi og svo Val í báðum leikjum.

Við erum stundum kannski aðeins of saddir, það er erfitt að lýsa því en akkúrat núna í þessum leik þá fundu menn aftur fyrir hungrinu, hungrinu í að elta menn uppi, taka pressuna saman, hlaupa saman og ákefðin í sóknarleiknum var góð. Góðir með boltann, frábærir án hans og auðvitað þurfum við að eiga fleiri svona leiki. 

Það byrjar á þriðjudaginn gegn KA, gríðarlega erfiður leikur fyrir Norðan í undanúrslitum bikarsins,“ sagði Óskar um leikinn.  

Óskar Hrafn á blaðamannafundi á Kópavogsvelli í gær.
Óskar Hrafn á blaðamannafundi á Kópavogsvelli í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst þessi frammistaða lýsandi fyrir okkur sjálfa og hvernig við sjáum bestu útgáfuna af sjálfum okkur, það eru fullt af frábærum fótboltamönnum í Blikaliðinu og þeir sýna yfirleitt sínar bestu hliðar þegar að þeir eru sem duglegastir varnarlega, 

Við þurfum að ná því oftar, við þurfum að spila eins í fleiri leikjum eins og gegn KA-mönnum. .Þeir eru aðeins særðir og það er búin að vera smá brekka hjá þeim. Þeir eru samt með frábært lið með mjög öflugan mannskap þannig að við vitum að við eigum von á mjög erfiðum leik. Ekkert nema toppleikur dugar okkur gegn KA,“ bætti Óskar við en hann býst við hörkuleik fyrir Norðan í undanúrslitum bikarkeppninnar á þriðjudaginn. 

Hjálpum þeim að fljúga

Sóknarmaðurinn Stefán Ingi Sigurðarson er á förum frá félaginu en hann gengur til liðs við belgíska B-deildarfélagið Patro Eisden. Óskar hrósaði Stefáni í hástert. 

„Við erum með ákveðnar hugmyndir um það og við höfum haft smá tíma til að plana það að vera án Stebba. Við erum virkilega glaðir með það sem hann er búinn að ná og afreka og þann stað sem hann er kominn á.

Það er búin að vera unun að fylgjast með honum þannig við gleðjumst yfir því. Nú þurfum við enn og aftur að endurskipuleggja sóknarleikinn okkar út frá þessum forsendum. 

Þegar Stefáni var skipt út af áttu hann og Óskar gott og langt knús saman. Óskari þykir vænt um Stefán og er þakklátur að hafa fengið að taka þátt í ferðalagi hans. 

„Mér þykir vænt um Stefán og ég er bara þakklátur að hafa fengið að taka þátt í þessu ferðalagi sem hann er á sem fótboltamaður. Ég segi það enn og aftur að okkar hlutverk er ekki að standa á öxlunum á mönnum og ýta þeim niður, heldur frekar að hjálpa þeim að fljúga. Hann er svo sannarlega búinn að fljúga í sumar og svo flýgur hann til Belgíu væntanlega um helgina og heldur vonandi áfram að standa sig eins og hann hefur gert. 

Að lokum, bjóstu við þessu frá honum fyrir tímabilið?

„Nei ég get ekki sagt að ég hafi búist við því að hann myndi skora tíu mörk í fyrstu þrettán leikjunum, ég skal vera fyrsti maðurinn til að viðurkenna það. Það hefði líka verið óréttlát að setja þá pressu á hann. 

Ég kvartaði yfir því að menn höfðu of mikla trú á honum hérna í byrjun og væru að setja of mikla pressu á hann. Hann sá um bæði að taka pressuna af sér og svo setja hana á sig sjálfur. 

Frammistaða hans og markaskorun hefur farið frammúr björtustu vonum flestra held ég. Það gat enginn skrifað þetta handrit eða séð það fyrir, sem er meiriháttar. Það er frábært að hann sé að taka þetta skref,“ sagði Óskar að lokum í samtali við mbl.is

Stefán Ingi Sigurðarson er á leiðinni til Belgíu.
Stefán Ingi Sigurðarson er á leiðinni til Belgíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert