„Við erum allar leiðtogar í þessu liði“

Breiðablik lagði Stjörnuna að velli í Garðabænum.
Breiðablik lagði Stjörnuna að velli í Garðabænum. Ljósmynd/Ottar Geirsson

Fyrirliði Breiðabliks í dag, Agla María Albertsdóttir, var himinlifandi með frammistöðu liðsins í sigri gegn Stjörnunni í undanúrslitum bikarkeppninnar í dag.

Leikurinn endaði jafn 2:2 en Breiðablik vann leikinn eftir vítaspyrnukeppni. Breiðablik þurfti tvisvar að koma til baka eftir að hafa fengið á sig mark. „Mér fannst þetta ótrúlega vel gert hjá okkur að ná að koma alltaf til baka og svo vorum við með kaldan haus í vítaspyrnukeppninni, ég er ógeðslega ánægð“.

Agla María bar fyrirliðabandið í dag í fjarveru Ástu Eir en Agla María segir það ekki vera neitt öðruvísi. „Þetta er ekkert breytt hlutverk, við erum allar leiðtogar í þessu liði og skiptir engu hver ber bandið, það er þó alltaf skemmtilegt og heiður“. 

Hún segir Stjörnuna vera með hörkulið og að leikurinn hafi verið fram og til baka. „Bæði lið fengu mörg marktækifæri þannig mér finnst sanngjarnt að leikurinn hafi endað jafn í lokinn. Þetta var sætur sigur en þetta getur alltaf farið á hvorn veginn sem er í vítaspyrnukeppni þannig ég er aðallega fegin“.

Breiðablik og Víkingur Reykjavík mætast í bikarúrslitunum og segir Agla María að hún sé vel klár í þann leik. „Þetta er fáránlega vel gert hjá þeim að vera komnar alla leið í bikarúrslitin og við berum virðingu fyrir þeim eins og öllum öðrum andstæðingum okkar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka