„Ég óska þeim bara til hamingju“

Óskar Hrafn Þorvaldsson var skiljanlega svekktur í leikslok.
Óskar Hrafn Þorvaldsson var skiljanlega svekktur í leikslok. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það var nokkuð þungt yfir Óskari Hrafni Þorvaldssyni, þjálfara karlaliðs Breiðabliks í fótbolta, eftir tap gegn KA í undanúrslitum bikarkeppninnar í kvöld. Liðin þurftu framlengingu og vítakeppni til að skera úr um það hvort þeirra færi í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.

KA jafnaði leikinn í lok venjulegs leiktíma og einnig undir lok framlengingarinnar. Stórir póstar í liði Blika klikkuðu svo á vítapunktinum en KA vann hana 3:1. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 2:2 og efir framlenginguna var hún 3:3.

Sæll Óskar. Þið eruð hársbreidd frá sigri í þessum leik en KA jafnar í tvígang.

„Ég held að það sé mjög auðvelt að taka leikinn saman. Við vorum betri aðilinn allan leikinn. Stundum er það ekki nóg. Þeir gáfust aldrei upp og nýttu sína sénsa vel. Þeir eiga hrós skilið fyrir það. Við höfum engan tíma til að vera að svekkja okkur á þessu.

Það er leikur eftir þrjá daga í deildinni. Við verðum bara að halda áfram. Við getum tekið góða frammistöðu að stórum hluta út úr þessum leik. Því miður þá náðum við ekki að klára þetta,“ sagði Óskar Hrafn í samtali við mbl.is.

Vítakeppnin var æsileg og margar góðar skyttur að klikka, úr báðum liðum.

„Já, já. Það er bara svoleiðis með vítakeppni. Þegar þangað er komið þá getur hvað sem er gerst. Maður hefur enga stjórn á þessu. KA var yfir þar og það skipti öllu. Ég óska þeim bara til hamingju með sætið í úrslitaleiknum,“ sagði hann.

Þú sagðir að það væri leikur eftir þrjá daga í deildinni. Eftir hann þá er ferðalag til Írlands og leikur við Shamrock Rovers. Það er brjálað að gera hjá ykkur og framlenging í þessum leik var líklega ekki á óskalistanum.

„Það er Fylkir næst á föstudaginn, flug út og aftur leikur á þriðjudag. Nú er bara að koma sér heim, svekkja sig aðeins í kvöld og svo mætum við gíraðir á morgun og förum að undirbúa næsta leik. Það er ekkert hægt að draga fjöður yfir það að þetta er álag.

Við erum í þessu til að spila alla þessa leiki, viljum standa okkur vel á öllum vígstöðvum og komast sem lengst í Evrópukeppninni og bikarnum. Við getum því ekki kvartað en þurfum að passa upp á endurheimt og slíkt,“ sagði Óskar Hrafn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka