Naumt tap fyrir Spáni í fyrsta leik

Dani Pérez og Adolf Daði Birgisson eigast við í kvöld.
Dani Pérez og Adolf Daði Birgisson eigast við í kvöld. Ljósmynd/UEFA

Íslenska U19-ára landsliðið í fótbolta karla mátti sætta sig við naumt tap fyrir Spáni, 2:1, þegar liðin áttust við í fyrstu umferð B-riðils EM 2023 á Möltu í kvöld.

Spænska liðið réði lögum og lofum stóran hluta leiksins en það íslenska var þó hvergi bangið og lék prýðilega gegn ógnarsterkum andstæðingi.

Victor Barberá, sóknarmaður Spánar, fékk sannkallað dauðafæri þegar hann skallaði rétt framhjá markinu af stuttu færi á níundu mínútu.

Spánn náði svo forystunni á 16. mínútu þegar miðvörðurinn Yarek Gasiorowski skoraði með skoti af markteig eftir hornspyrnu fyrirliðans Ilias Akhomach frá vinstri.

Yarek Gasiorowski fagnar marki sínu.
Yarek Gasiorowski fagnar marki sínu. Ljósmynd/UEFA

Á 19. mínútu átti Akhomach, sem er nýgenginn í raðir Villarreal frá Barcelona, glæsilegan sprett og fast skot rétt fyrir utan D-bogann en Lúkas Petersson í marki Íslands varði vel til hliðar.

Á 23. mínútu komst íslenska liðið loks í sókn þar sem Eggert Aron Guðmundsson átti glæsilegan sprett við vítateig Spánverja, tók skotið við D-bogann en boltinn fór af Gasiorowski og naumlega framhjá, hornspyrna.

Mínútu síðar barst boltinn út til Eggerts Arons eftir hornspyrnuna, hann náði þrumuskoti með vinstri fæti en það fór rétt yfir markið.

Skömmu síðar, á 26. mínútu, gerði Akhomach sig aftur líklegan en skot hans utarlega úr vítateignum for af Þorsteini Aroni Antonssyni og aftur fyrir endamörk.

Hinn miðvörður Spánverja, Arnau Casas, komst nálægt því að tvöfalda forystuna þegar skalli hans af nærstönginni eftir hornspyrnu frá hægri fór rétt framhjá fjærstönginni.

Spánverjar héldu áfram að herja á Íslendinga og átti Manuel Ángel hættulegt skot við vítateigslínuna eftir laglegt spil á 42. mínútu, en það fór framhjá markinu.

Ángel var svo aftur mættur á fjærstöngina mínútu síðar, náði skoti á lofti innan vítateigs en Lúkas varði með naumindum aftur fyrir.

Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik og staðan var því 1:0, Spáni í vil, í leikhléi.

Þorsteinn Aron þurfti að fara meiddur af velli í hálfleik og inn í hans stað kom Arnar Daníel Aðalsteinsson.

Ekki blés byrlega fyrir Arnar Daníel þar sem hann missti boltann frá sér á stórhættulegum stað strax í upphafi síðari hálfleiks, Akhomach renndi honum inn fyrir á Barberá, Logi Hrafn Róbertsson var á undan í boltann en tæklaði hann í hendur Lúkasar, sem varði til hliðar þar sem Barberá kom boltanum loks í netið af örstuttu færi.

Staðan því orðin 2:0 fyrir Spáni.

Victor Barberá í þann mund að koma Spáni í 2:0.
Victor Barberá í þann mund að koma Spáni í 2:0. Ljósmynd/UEFA

Eftir markið vann Ísland sig betur inn í leikinn og hóf að halda boltanum mun betur innan liðsins, sérstaklega eftir þrefalda skiptingu Ólafs Inga Skúlasonar landsliðsþjálfara eftir tæplega klukkutíma leik.

Erfiðlega gekk þó að skapa sér færi.

Á 77. mínútu lenti Arnar Daníel aftur í vandræðum, rann og missti boltann í grennd við eigin vítateig, títtnefndur Akhomach náði honum og renndi fyrir markið þar sem varamaðurinn Samuel Omorodion skaut yfir úr sannkölluðu dauðafæri.

Þremur mínútum fyrir leikslok fékk Bjarni Guðjón Brynjólfsson, sem lék vel á miðju íslenska liðsins, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Hann verður því í leikbanni þegar liðið mætir Noregi í annarri umferð riðilsins á föstudag.

Ilias Akhomach, fyrirliði Spánar, reyndist íslenska liðinu erfiður. Arnar Númi …
Ilias Akhomach, fyrirliði Spánar, reyndist íslenska liðinu erfiður. Arnar Númi Gíslason, Gísli Gottskálk Þórðarson og Bjarni Guðjón Brynjólfsson reyna að stöðva hann. Ljósmynd/UEFA

Þrátt fyrir að vera einum manni færri minnkaði íslenska liðið muninn á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Sending Róberts Frosta Þorkelssonar af vinstri kantinum fór þá af varnarmanni, barst út til Ágústs Orra Þorsteinssonar sem tók glæsilegt, hnitmiðað skot vinstra megin úr vítateignum sem hafnaði niðri í bláhorninu fjær.

Staðan því orðin 2:1 og reyndust það lokatölur.

Þrátt fyrir tapið er ljóst að margt er í íslenska liðið spunnið, sem er vel spilandi og skipulagt og ætti því að eiga góða möguleika í síðari tveim leikjum sínum gegn Noregi og Grikklandi í riðlinum þar sem verður haft að augnamiði að tryggja sér sæti í undanúrslitum mótsins.

Fylgst var með gangi mála í lýsingu hér á mbl.is.

Byrjunarlið Íslands (4-3-3):

Mark: Lúkas Petersson. Vörn: Hlynur Freyr Karlsson (fyrirliði), Logi Hrafn Róbertsson, Þorsteinn Aron Antonsson (Arnar Daníel Aðalsteinsson 46.), Arnar Númi Gíslason (Daníel Freyr Kristjánsson 58.). Miðja: Bjarni Guðjón Brynjólfsson, Gísli Gottskálk Þórðarson (Sigurbergur Áki Jörundsson 58.), Guðmundur Baldvin Nökkvason (Haukur Andri Haraldsson 58.). Sókn: Adolf Daði Birgisson, Ágúst Orri Þorsteinsson, Eggert Aron Guðmundsson (Róbert Frosti Þorkelsson 80.).

Byrjunarlið Spánar (4-4-2):

Mark: Bruno Iribarne. Vörn: Iván Fresneda, Arnau Casas, Yarek Gasiorowski, Alex Valle (Edgar Pujol 90.). Miðja: Gonzalo, Manuel Ángel (Aleix Garrido 83.), César Palacios (Felix Garreta 90.), Dani Pérez (Assane Diao 72.). Sókn: Ilias Akhomach (fyrirliði), Victor Barberá (Samuel Omorodion 72.).

Íslenski hópurinn sem hóf leik á EM 2023 í kvöld.
Íslenski hópurinn sem hóf leik á EM 2023 í kvöld. Ljósmynd/KSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert