Auðvitað þykir mér vænt um þessa leikmenn

Elín Helena Karlsdóttir í baráttunni.
Elín Helena Karlsdóttir í baráttunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín Helena Karlsdóttir, varnarmaður Breiðabliks, var að vonum kát eftir 2:0-heimasigur liðsins á Keflavík í Bestu deildinni í fótbolta í dag. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Katrín Ásbjörnsdóttir tvö mörk í seinni hálfleik.

„Þetta var þolinmæðisverk. Við þurftum að spila boltanum hratt og finna opnanir. Þær voru mjög þéttar til baka og við vissum að þetta yrði erfitt. Við héldum boltanum vel, færðum hann hratt og þá komu mörkin.“

„Við vorum alveg með þetta. Við vissum að markið myndi koma og við þurftum að halda áfram. Við vorum með stjórn á þessu allan tímann,“ sagði Elín við mbl.is eftir leik.

Birta Georgsdóttir úr Breiðabliki á fleygiferð í dag.
Birta Georgsdóttir úr Breiðabliki á fleygiferð í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Elín er uppalin hjá Breiðabliki en lék síðustu tvö ár að láni hjá Keflavík, þar sem hún fékk tækifæri í efstu deild í fyrsta skipti. Hún hefur svo verið í stóru hlutverki hjá Breiðablik á þessari leiktíð.

„Þetta er eins og allir aðrir leikir en auðvitað þykir mér vænt um þessa leikmenn og vænt um klúbbinn sem gaf mér traustið í tvö ár. Það var gaman að spila við þær,“ sagði hún og hélt áfram:

„Það er erfitt að komast inn hjá Breiðabliki og það er mikil samkeppni. Ég vissi að þyrfti að reyna að brjóta mér inn leiðina með því að fá mínútur annars staðar og Keflavík gaf mér þær. Þar fékk ég traustið í tvö tímabil. Svo reyndi ég að vinna mér inn sætið í vetur og það tókst og hefur gengið vel hingað til,“ sagði hún.

Elín er á 21. aldursári. Við hlið hennar í vörninni spilar hin bandaríska Toni Pressley, sem er reynslumikill atvinnumaður frá Bandaríkjunum. „Toni er frábær og það er frábært að spila með henni. Það er mjög gott fyrir ungan hafsent eins og mig að fá að spila með svona reynslubolta. Hún gefur mér og liðinu rosalega mikið.“

Breiðablik hefur nú leikið tíu leiki í röð í öllum keppnum án þess að tapa. Þá er liðið komið í bikarúrslit. „Við erum á góðu róli. Það er frábær stemning í hópnum og við erum að finna okkar takt. Það eru spennandi tímar fram undan,“ sagði Elín.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert