Breiðablik hafði betur gegn Keflavík 2:0 í Bestu deild kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli í dag. Breiðablik fór með sigrinum upp í 26 stig og er með þriggja stiga forskot á Val, sem á leik til góða. Keflavík er í sjöunda sæti með 12 stig.
Breiðablik var með nokkra yfirburði í fyrri hálfleik og skapaði sér nokkur góð færi. Vera Varis í marki Keflavíkur stóð hins vegar vaktina afar vel og verði nokkrum sinnum mjög vel.
Varði hún m.a. vel frá Öglu Maríu Albertsdóttur úr góðu færi snemma leiks og svo glæsilega þegar Bergþóra Sól Ásmundsdóttir átti hörkuskot rétt utan teigs um miðjan hálfleikinn. Þá greip hún nokkrum sinnum mjög vel inn í og sá til þess að Breiðabliki tókst ekki að skora.
Hinum megin voru færin færri og langt á milli þeirra. Það besta kom á 34. mínútu þegar Caroline Van Slambrouck hitti ekki boltann í úrvalsfæri í teignum eftir skyndisókn og fyrirgjöf frá Dröfn Einarsdóttur.
Ekkert var skorað í fyrri hálfleiknum hins vegar og allt jafnt fyrir seinni hálfleikinn, þrátt fyrir nokkra yfirburði toppliðsins.
Það tók Breiðablik sex mínútur að skora fyrsta markið í seinni hálfleik og það gerði Katrín Ásbjörnsdóttir þegar hún rak endahnútinn á fallega sókn með skoti af stuttu færi, eftir fyrirgjöf frá Öglu Maríu Albertsdóttur.
Sex mínútum síðar slapp Linli Tu inn fyrir vörn Breiðabliks, eftir misskilning heimakvenna, og var ein gegn Telmu í markinu. Telma gerði mjög vel í að breiða úr sér og verja glæsilega. Var færið það besta hjá Keflavík fram til þessa.
Það átti eftir að vera dýrkeypt, því Katrín skoraði sitt annað mark og annað mark Breiðabliks á 62. mínútu með góðum skalla í fjærhornið, aftur eftir sendingu frá Öglu Maríu.
Eftir annað markið róaðist leikurinn töluvert. Breiðablik hélt boltanum vel, án þess að skapa sér mikið og hinum megin komst Keflavík lítið áleiðis. Kópavogsliðið fagnaði því sanngjörnum tveggja marka sigri.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á mánudag.