„Einn af okkar betri leikjum“

Monica Wilhelm, markvörður Tindastóls, varði vítaspyrnu í dag.
Monica Wilhelm, markvörður Tindastóls, varði vítaspyrnu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Monica Wilhelm, bandarískur markvörður Tindastóls, var svekkt með 1:0-tap liðsins fyrir FH í í Bestu deildinni í fótbolta í Kaplakrika í dag en sagði Stólana þó síður en svo af baki dottna.

„Þetta var erfiður ósigur fyrir okkur. Ég tel okkur hafa lagt hjarta og sál í hverja einustu mínútu í leiknum í dag og það er auðvitað leiðinlegt þegar úrslitin eru ekki að falla með þér.

Við komum inn í leikinn með því hugarfari að við ætluðum að leggja allt í sölurnar og einbeita okkur að hlutunum sem við unnum að í undanfarinni æfingaviku.

Mér fannst við framkvæma alla þá hluti enn betur en við gerðum í vikunni og fannst þetta vera einn af okkar betri leikjum í sumar. Við ætlum bara að halda áfram að bæta okkur í framhaldinu,“ sagði Monica í samtali við mbl.is eftir leik.

Heidi Giles í baráttu við Murielle Tiernan í leiknum í …
Heidi Giles í baráttu við Murielle Tiernan í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Gaf hverja einustu tommu í vítavörslunni

Hún varði nokkrum sinnum frábærlega í leiknum, þar á meðal vítaspyrnu á síðustu mínútunni. Spurð hvort hún hafi verið sátt við eigin frammistöðu þrátt fyrir tapið sagði Monica:

„Að vera markvörður snýst um að verja þau skot sem þú getur og stundum skotin sem þú átt í raun ekki að geta varið. Að verja vítaspyrnu er vitanlega eitt af þeim tilfellum þar sem líkurnar eru fyrir fram ekki þér í hag.

Ég vissi að við værum einu marki undir og ég ætlaði að setja hverja einustu tommu sem ég átti þegar ég skutlaði mér, með það fyrir augum að halda liðinu mínu inni í leiknum. Ég náði að verja og var stolt af því að við áttum möguleika þessar síðustu mínútur leiksins.“

Þýðir ekki að hengja haus

Þar sem ÍBV vann sinn leik gegn Þór/KA í dag er Tindastóll nú í níunda og næstneðsta sæti Bestu deildarinnar. Hvernig horfir framhaldið við henni?

„Ég tel það vera mikilvægt að halda áfram með höfuðið hátt. Það er svo mikið af fótbolta sem á eftir að spila á tímabilinu. Ef við verðum eitthvað niðurlútar núna þá verðum við áfram við botninn.

Við berum höfuðið hátt, berjumst áfram og leggjum hart að okkur. Ég hef trú á því að við getum unnið okkur aftur upp töfluna. Við þurfum bara að taka einn leik í einu, það er það mikilvægasta í þessu,“ sagði Monica að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert