FH aftur á sigurbraut

Mackenzie George umkringd leikmönnum Tindastóls í dag.
Mackenzie George umkringd leikmönnum Tindastóls í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

FH hafði betur gegn Tindastóli, 1:0, þegar liðin áttust við í nýliðaslag í 12. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í Kaplakrika í Hafnarfirði í dag.

Leikurinn hófst fjörlega því eftir aðeins þriggja mínútna leik átti Hannah Jane Cade líklega fyrirgjöf frekar en skot vinstra megin við vítateiginn, það sveif yfir Aldísi Guðlaugsdóttur í marki FH og hafnaði í stönginni áður en FH-ingar náðu að hreinsa frá.

Eftir þetta tóku heimakonur í FH leikinn yfir og sköpuðu sér nokkur hættuleg færi.

Esther Rós Arnarsdóttir og Mackenzie George gerðu sig báðar líklegar í og við vítateiginn en skot þeirra beggja fóru rétt framhjá marki Tindastóls.

Á 35. mínútu fékk Esther Rós sannkallað dauðafæri þegar hornspyrna Shainu Ashouri frá vinstri rataði til hennar á fjærstöngina, Esther Rós tók skotið innan markteigs en varnarmaður Tindastóls bjargaði á marklínu og kom boltanum aftur fyrir endamörk.

Á fyrstu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks brutu FH-ingar loks ísinn þegar Esther Rós, sem hafði ógnað í sífellu, komst verðskuldað á blað.

Gwendolyn Mummert skallaði þá hornspyrnu Shainu frá, Margrét Brynja Kristinsdóttir náði boltanum, lék laglega á Hönnuh Jane Cade, átti svo glæsilega fyrirgjöf frá vinstri þar sem Esther Rós sleit sig lausa, var á undan Monicu Wilhelm í marki Tindastóls og potaði boltanum á lofti í netið af stuttu færi.

Staðan var því 1:0, FH í vil, í leikhléi.

Síðari hálfleikurinn var öllu tíðindaminni en þegar hann var rúmlega hálfnaður fékk Tindastóll fínt færi til þess að jafna metin.

Hugrún Pálsdóttir gaf þá fyrir af vinstri kantinum, Aldís missti af boltanum og Melissa Garcia skallaði yfir opið markið. Hún var þó í litlu jafnvægi og þurfti að teygja sig í boltann.

Einni mínútu fyrir leikslok átti Shaina Ashouri hörkuskot fyrir utan vítateig sem Wilhelm varði vel til hliðar.

Örskömmu síðar fékk FH dæmda vítaspyrnu þegar Mummert handlék boltann innan vítateigs. Ashouri steig á vítapunktinn en Wilhelm sá við henni og varði glæsilega.

Í kjölfar fékk FH hornspyrnu þar sem Arna Eiríksdóttir náði hörkuskalla en enn á ný varði Wilhelm, að þessu sinni með naumindum yfir markið.

Garcia fékk svo gott skotfæri á fimmtu mínútu uppbótartíma en skot hennar við vítateigslínuna fór rétt yfir markið.

Að lokum reyndist mark Estherar Rósar nægja FH-ingum, sem unnu að lokum góðan eins marks sigur.

Hann var kærkominn enda var liðið ekki búið að vinna í þremur leikjum í röð, tveimur í deildinni og undanúrslitaleik í bikarkeppninni.

Með sigrinum fór FH upp fyrir Þór/KA og er nú í fjórða sæti Bestu deildarinnar með 20 stig. Tindastóll fer með tapinu niður í níunda sætið.

FH 1:0 Tindastóll opna loka
90. mín. Shaina Ashouri (FH) skorar ekki úr víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert