Sjö stiga forysta Aftureldingar

Arnór Gauti Ragnarsson og Aron Elí Sævarsson faðmast en Aron …
Arnór Gauti Ragnarsson og Aron Elí Sævarsson faðmast en Aron skoraði sigurmark Aftureldingar í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afturelding hélt áfram sigurgöngu sinni í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld og lagði Þrótt úr Reykjavík að velli í Mosfellsbæ, 1:0, á meðan Leiknir vann Ægi í botnslag í Breiðholti.

Afturelding er þar með komin með sjö stiga forskot á Fjölni á toppi deildarinnar og hefur ekki tapað leik, fengið 29 stig af 33 mögulegum þegar liðið hefur leikið 11 leiki af 22.

Fyrirliðinn Aron Elí Sævarsson skoraði sigurmarkið á 59. mínútu eftir sendingu Ásgeirs Marteinssonar. Undir lok leiksins fékk Ian Jeffs, þjálfari Þróttar, rauða spjaldið.

Þróttarar eru áfram í sjöunda sæti deildarinnar með 13 stig.

Í Efra-Breiðholti vann Leiknir sigur á Ægi, 3:2, í miklum fallslag en Ægismenn voru yfir þegar skammt var til leiksloka.

Sindri Björnsson skoraði fyrir Leikni snemma leiks en áður en hálftími var liðinn höfðu Dimitrije Cokic og Ivo Bras skorað og komið Ægi yfir.

Omar Sowe jafnaði metin fyrir Leikni á 85. mínútu og síðan skoruðu nýliðarnir úr Þorlákshöfn sjálfsmark í uppbótartímanum, 3:2.

Leiknir fór þar með upp í níunda sætið með 11 stig en Selfoss er með tíu stig, Njarðvík átta og Ægir fjögur í þremur neðstu sætunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert