HK og KR skiptu stigunum á milli sín eftir 1:1-jafntefli í Kórnum í Bestu deild karla í kvöld. Leikurinn var hluti af 14. umferð deildarinnar. Liðin eru á svipuðum slóðum í deildinni og bæði í harðri baráttu um að vera í efri hluta deildarinnar, og bar leikurinn þess merki.
Bæði lið mættu spræk til leiks og settu mikinn hraða í spil sitt, sem skilaði sér ekki alltaf í nákvæmustu sendingunum eða góðum færum. Liðin bættu hins vegar upp fyrir það með nokkrum ákafa, sem hefði vel getað skilað þeim marki í fyrri hálfleik.
Þannig áttu KR-ingar ágætis færi á 10. mínútu þegar Kristinn Jónsson reyndi að vippa yfir Arnar Frey í marki HK, en vippaði líka yfir markið. Þá fengu bæði Marciano Aziz og Arnþór Ari Atlason fín skot strax í næstu sókn HK sem fóru forgörðum.
Leikurinn var þannig teiganna á milli í fyrri hálfleik, án þess þó að liðin næðu að skora mark.
Seinni hálfleikurinn byrjaði ögn hægar, og unnu KR-ingar sig betur inn í hann eftir því sem leið á. Þeir uppskáru mark á 67. mínútu þegar Kristján Flóki Finnbogason skallaði boltann laglega í netið eftir flotta fyrirgjöf hjá Kristni Jónssyni.
Heimamenn lögðu árar ekki í bát, heldur reyndu allt hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn. Náðu þeir því á 84. mínútu þegar Hassan Jalloh, nýkominn inn á sem varamaður, náði flottum spretti upp vinstri kantinn og gaf út á Atla Arnarson sem var nokkuð fyrir utan teig. Sá smellhitti knöttinn og kom Simen Kjellevik engum vörnum við í marki KR-inga.
Þrátt fyrir að bæði lið reyndu að ná sigurmarki reyndist tíminn ekki nægur til þess, og því var sanngjarnt jafntefli niðurstaðan.