Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði sigurmark Breiðabliks gegn Fram í Bestu deild karla í fótbolta á Framvellinum í Úlfarsárdal í kvöld. Markið kom strax á 2. mínútu, en þau urðu ekki fleiri, þrátt fyrir að Delphin Tshiembe í liði Fram hafi fengið beint rautt spjald á 48. mínútu.
„Við vorum með stjórn á þessu í fyrri hálfleik og vorum að spila vel. Eftir að þeir fengu rauða spjaldið vorum við svolítið slappir, bæði í vörn og sókn, en við kláruðum þetta allavega.
Kannski héldum við að þetta yrði auðvelt eftir rauða spjaldið, en þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið. Þetta var skrítið á lokamínútunum og við vorum eitthvað góðir með okkur,“ sagði Ágúst um leikinn.
Það var varla búið að flauta leikinn á þegar Ágúst slapp einn í gegn og skoraði eftir sendingu frá Alexander Helga Sigurðarsyni. „Ég veit ekki hvernig þetta gerðist. Allt í einu var ég bara kominn einn í gegn og ég kláraði vel. Það var góð tilfinning.“
Breiðablik mætir írska liðinu Shamrock Rovers í annað sinn í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu á Kópavogsvelli á þriðjudag. Blikar eru í góðri stöðu, eftir 1:0-útisigur í fyrri leiknum „Það verður ekkert eðlilega gaman. Við verðum að vera vel tilbúnir, því við ætlum okkur áfram í þessari keppni,“ sagði Ágúst.