Glæsilegur sigur Blika á Írlandsmeisturunum

Breiðablik komst í kvöld áfram í 2. umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 2:1-sigur á Írlandsmeisturum Shamrock Rovers. Blikar unnu einvígið 3:1 og mæta Danmerkurmeisturum FC Kaupmannahöfn í 2. umferðinni.

Shamrock var sterkari aðilinn allar fyrstu mínúturnar, var mikið með boltann á vallarhelmingi Breiðabliks og setti nokkra pressu á Íslandsmeistarana. Breiðablik stóð þá pressu af sér og tók snemma völdin í leiknum.

Frá tíundu mínútu skapaði Breiðablik sér fjölmörg góð færi og Alexander Helgi Sigurðarson og Damir Muminovic voru báðir búnir að fara illa með ákjósanleg færi þegar Jason Daði Svanþórsson skoraði fyrsta markið á 16. mínútu.

Jason fékk boltann á miðjum vellinum, brunaði inn í teig, lék á varnarmann og lagði boltann snyrtilega fram hjá Leon Pöhls í marki Shamrock og í netið. Var markið hið glæsilegasta, eftir fallegan sprett.

Þremur mínútum síðar komst Kristinn Steindórsson í gott færi, en þá varði Pöhls frá honum og sá þýski varði aftur frá Alexander skömmu síðar. Var Breiðablik því mikið sterkari aðilinn.

Leikurinn róaðist aðeins seinni hluta fyrri hálfleiks og urðu mörkin því ekki fleiri fyrir leikhlé.

Rétt eins og í fyrri hálfleiknum voru það gestirnir sem byrjuðu betur í seinni hálfleik og átti Rory Gaffney hættulegt skot strax í upphafi hálfleiksins og Ronan Finn fékk gott færi á 51. mínútu, en í bæði skiptin varði Anton Ari mjög vel.

Breiðablik komst svo tveimur mörkum yfir í leiknum og þremur mörkum yfir í einvíginu á 57. mínútu þegar Höskuldur Gunnlaugsson átti fyrirgjöf og boltinn rataði yfir alla og í hornið fjær.

Gestirnir gáfust ekki upp og þeir fengu líflínu á 64. mínútu þegar Graham Burke skoraði úr víti, eftir að Oliver Sigurjónsson handlék boltann innan teigs. Eftir skoðun myndbandsdómara var víti dæmt og Burke skoraði af öryggi.

Shamrock gekk hins vegar illa að skapa færi eftir það og Breiðablik fékk næsta góða færi leiksins en Pöhls í marki írska liðsins varði glæsilega frá Jasoni Daða á 70. mínútu, þegar Jason slapp einn í gegn.

Breiðablik gerði vel í að sigla sigrinum í höfn eftir það, án þess að hleypa írska liðinu of nálægt markinu sínu. 

Breiðablik 2:1 Shamrock opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. Fátt sem bendir til annars en að Breiðablik sé að fara áfram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert