Hann sá örugglega litla hausinn minn

Oliver heilsar upp á andstæðingana fyrir leik.
Oliver heilsar upp á andstæðingana fyrir leik. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta var ótrúlega gaman,“ sagði Oliver Sigurjónsson, miðjumaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðins á Írlandsmeisturum Shamrock Rovers í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

Breiðablik vann einvígið samanlagt 3:1 og tryggði sér sæti í 2. umferðinni, þar sem liðið mætir Danmerkurmeisturum FC Kaupmannahöfn.

„Við náðum að gera það sem við lögðum upp með og fengum fullt af dauðafærum líka. Við getum verið stoltir af sjálfum okkur,“ sagði Oliver og hélt áfram:

Oliver fremstur í flokki í fögnuði Blika eftir leik.
Oliver fremstur í flokki í fögnuði Blika eftir leik. mbl.is/Hákon Pálsson

„Þetta var sterk frammistaða á móti góðu liði. Við vorum grjótharðir og ég held það hafi komið þeim á óvart hvað við vorum orkumiklir framan af leik í báðum leikjunum. Frammistaðan var frábær og við verðum að byggja á þessu og koma grjótharðir á móti FCK, sem verður enn erfiðara.“

Shamrock minnkaði muninn í 2:1 í seinni hálfleik, eftir að Oliver handlék boltann innan teigs og víti dæmt. Hann var ekki sáttur við dóminn, en viðurkenndi að hafa fengið boltann í höndina.

„Það fór kannski aðeins um mann. En mér leið vel, því þeir voru ekki að skapa góð færi. Við vorum með meiri orku og þess vegna leið mér ágætlega. Í vítinu ýtti hann mér og ég missi jafnvægið.“

Oliver kátur í leikslok.
Oliver kátur í leikslok. mbl.is/Hákon Pálsson

„Ég var ekki einu sinni að horfa á boltann og ég veit ekki hvernig staðsetningin var á hendinni. Ég fékk boltann í handabakið, en dómarinn horfði ekki á að mér var ýtt. Þeir horfa bara hægt á eitthvað augnablik. Mér fannst þetta ódýrt.“

Höskuldur Gunnlaugsson skoraði annað mark Breiðabliks með skoti, sem átti væntanlega að vera fyrirgjöf. Oliver sagði fyrirliðann sinn ekki hafa verið að reyna að skora.

„Nei, nei, nei,“ sagði Oliver og hló. „Ég var á fjærstönginni og hann sá örugglega litla hausinn minn, áður en hann negldi honum inn. Þú býrð til þína eigin heppni. Höskuldur er mjög góður leikmaður en ég ætla ekki að leyfa honum að njóta vafans í þetta skiptið,“ sagði miðjumaðurinn léttur.

FC Kaupmannahöfn er stærsta félag Norðurlandanna og er ljóst að Breiðablik á erfitt einvígi fyrir höndum.

„Þetta verður ótrúlega skemmtilegt. Við fáum þá fyrst hérna og við verðum að koma þeim á óvart. Þeir eru enn á undirbúningstímabilinu og það verður gaman að sjá hvar við erum, samanborið við þá. Óskar elskar að tala um að falla á sitt eigið sverð. Hann ætlar ekki að fara á nein önnur sverð núna,“ sagði Oliver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka