Spenntur og fær fiðrildi í magann

Óskar Hrafn Þorvaldsson á hliðarlínunni í kvöld.
Óskar Hrafn Þorvaldsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég er gríðarlega stoltur og glaður fyrir þeirra hönd,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins á Shamrock Rovers í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

Með sigrinum tryggði Breiðablik sér 3:1-sigur í einvíginu gegn Írlandsmeisturunum og viðureign gegn Danmerkurmeisturum FCK í 2. umferðinni.

„Við vorum að spila okkar sautjánda Evrópuleik saman og við höfum vaxið gríðarlega síðan við fórum að spila þessa leiki. Það er það besta við þetta, að sjá leikmennina sína vaxa og verða betri með hverju verkefninu.

Liðsmenn Breiðabliks fagna vel í leikslok.
Liðsmenn Breiðabliks fagna vel í leikslok. mbl.is/Hákon Pálsson

Frammistaðan var frábær og úrslitin fylgdu með. Það er frábært að hafa unnið þá í báðum leikjunum og flestir geta sagt að við höfum farið sannfærandi áfram,“ sagði Óskar Hrafn.

Breiðablik fékk fjölmörg færi til að skora fleiri mörk í kvöld og gera leikinn þægilegri, en færanýtingin hefði mátt vera betri. Óskar segir sína menn þurfa að nýta færin betur í Evrópukeppni.

„Við hefðum getað komið okkur í þægilegri stöðu og klárað þennan leik snemma í seinni hálfleik, en við tökum það með okkur. Við þurfum að fara betur með færin og bera meiri virðingu fyrir þeim. Við fáum ekki 10-15 færi í leik á þessu stigi, svo við þurfum að fara vel með þau,“ sagði hann.

Shamrock minnkaði muninn með marki í seinni hálfleik, en fékk ekki mörg góð færi eftir það og Breiðablik sigldi sætum sigri í leiknum og einvíginu í höfn.

„Mér leið allan tímann vel. Auðvitað er maður spenntur og fær fiðrildi í magann, en í gruninn fannst mér þeir ekki vera að skapa neitt. Þeir herjuðu ekki sérstaklega á okkur og þetta var tilviljunarkennt í lokin. Við vorum með fína stjórn á þessu. Varnarleikurinn var svo frábær,“ sagði Óskar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka