Hjálpar Íslandi að fjarlægjast þann ömurlega stað

Leikmenn Breiðabliks gera sig klára fyrir leikinn í gær.
Leikmenn Breiðabliks gera sig klára fyrir leikinn í gær. mbl.is/Eyþór Árnason

Breiðablik vann sætan 2:1-sigur á Shamrock Rovers frá Írlandi í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á Kópavogsvelli í gærkvöldi og tryggði sér í leiðinni einvígi við FC Kaupmannahöfn í 2. umferð.

Með sigrinum tryggði Breiðablik sér í það minnsta þrjú einvígi til viðbótar í Evrópukeppni, þar sem liðið fellur niður í Evrópudeildina og Sambandsdeildina tapi liðið næstu tveimur einvígjum.

„Þetta færir okkur sex Evrópuleiki í viðbót, að minnsta kosti, og tvö og hálft stig í Evrópu fyrir þetta ár. Næsta ár verðum við með átta og hálft stig. Þetta styrkir stöðu Breiðabliks í Evrópu og hjálpar Íslandi að fjarlægjast þann ömurlega stað að vera bara með þrjú lið í Evrópukeppni.

Óskar Hrafn Þorvaldsson öskrar sína menn áfram í útileiknum.
Óskar Hrafn Þorvaldsson öskrar sína menn áfram í útileiknum. Ljósmynd/Inpho Photography

Hvert stig og hver sigur sem íslenskt lið vinnur er dýrmætt. Þetta er svo lyftistöng fyrir Breiðablik. Það er frábært að eiga að minnsta kosti þrjá heimaleiki í Evrópukeppni eftir,“ útskýrði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks í samtali við mbl.is eftir leik.

Orri Steinn Óskarsson, sonur Óskars Hrafns, er leikmaður FC Kaupmannahafnar, eins og Ísak Bergmann Jóhannesson. Óskar vildi ekki mikið ræða einvígi við son sinn og sterkasta lið Norðurlandanna, þar sem liðið leikur fyrst deildarleik við ÍBV.

„Það er leikur við ÍBV á föstudag. Við verðum að einbeita okkur að því. Við lokum Meistaradeildarskúffunni í bili og opnum Bestudeildarskúffuna. Við einbeitum okkur að þeim leik. Þegar sá leikur er búinn getum við einbeitt okkur að næsta verkefni í Evrópu. Við tökum á því þegar við komum að þeirri brú,“ sagði Óskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert