Leiknir úr Reykjavík vann sinn þriðja leik í röð í 1. deild karla í fótbolta er Leiknismenn unnu 3:2-heimasigur á Þrótti úr Reykjavík í Breiðholti í kvöld.
Ágúst Karel Magnússon kom Þrótturum yfir á 12. mínútu en Omar Sowe jafnaði metin fyrir Leiknismenn á 29. mínútu, 1:1.
Daníel Finns Matthíasson kom Leikni yfir á 41. mínútu, 2:1 sem voru hálfleikstölur.
Aron Snær Ingason jafnaði metin á ný á 71. mínútu fyrir Þróttara, 2:2.
Það entist ekki lengi en Hjalti Sigurðsson skoraði sigurmark Leiknismanna átta mínútum síðar, 3:2.
Leiknismenn, sem voru í fallsæti fyrir stuttu, eru komnir í fjórða sæti deildarinnar með 17 stig en Þróttur er í sjöunda sæti með 14.