Breiðablik hafði betur gegn ÍBV, 3:1, í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Með sigrinum fór Breiðablik úr þriðja sæti og upp í annað sæti. Þar er liðið með 33 stig, fimm stigum minna en Víkingur úr Reykjavík, sem á leik til góða. ÍBV er enn í 8. sæti með 17 stig.
ÍBV var síst lakari aðilinn framan af og Oliver Heiðarsson fékk úrvalsfæri til að skora fyrsta markið á 11. mínútu eftir mistök hjá Damir Muminovic. Oliver slapp þá einn gegn Antoni Ara Einarssyni í marki Breiðabliks, en markvörðurinn gerði mjög vel í að verja.
Blikarnir refsuðu fyrir það og Damir sjálfur skoraði fyrsta markið á 20. mínútu með skalla úr teignum eftir fyrirgjöf frá Höskuldi Gunnlaugssyni.
Stundarfjórðungi síðar bætti Viktor Örn Margeirsson, félagi Damirs í vörninni, við öðru markinu með öðrum skalla, eftir fyrirgjöf frá Viktori Karli Einarssyni.
Breiðablik gerði nánast út um leikinn á lokamínútu fyrri hálfleiks er Klæmint Olsen gerði þriðja markið með góðri afgreiðslu úr teignum, eftir fyrirgjöf Jasons Daða Svanþórssonar.
Eyjamenn gáfust ekki upp og þeir komu sér aftur inn í leikinn þegar Hermann Þór Ragnarsson minnkaði muninn á 55. mínútu með skot í slá og inn úr teignum, eftir undirbúning hjá Arnari Breka Gunnarssyni.
Eyjamönnum gekk hins vegar illa að fylgja á eftir markinu og sköpuðu sér sáralítið þar sem eftir lifði leiks. Hinum megin voru Blikar sáttir við forystuna og tveggja marka sigur meistaranna varð raunin.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.