Jóan Símun Edmundsson gengur til liðs við KA út tímabilið en hann er einn besti leikmaður Færeyja.
Jóan verður 32 ára gamall á morgun og er eini Færeyingurinn sem hefur spilað og skorað í efstu deild í Þýskalandi.
Hann spilaði um tíma með Hallgrími Jónassyni, þjálfara KA, í OB í Danmörku.
„KA liðið stendur í ströngu á þremur vígsstöðvum og er afar sterkt að fá Jóan í okkar raðir fyrir þau átök. Strákarnir taka á móti Dundalk í fyrri leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildar UEFA á Framvellinum á fimmtudaginn og viku síðar mætast liðin ytra. Þá eru strákarnir komnir í bikarúrslitaleikinn auk þess sem gríðarlega hörð barátta er í Bestu deildinni.
Það verður frábært að fylgjast með þessum öfluga kappa í gula og bláa búningnum og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í KA. Minnum á að miðasala á stórleikinn gegn Dundalk á fimmtudaginn er í fullum gangi í Stubb og aldrei að vita nema Jóan leiki þar sinn fyrsta leik fyrir KA,“ stóð í tilkynningu KA.
Hann var einnig orðaður við Breiðablik en valdi að fara til Akureyrar. Þar hittir hann samlanda sinn Pæt Joensson Petersen.