Danmerkurmeistarar FC Köbenhavn unnu útisigur, 2:0, á Íslandsmeisturum Breiðabliks í fyrri leik liðanna í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.
Breiðablik komst í aðra umferð með því að slá út Írlandsmeistara Shamrock Rovers en Köbenhavn fór sjálfkrafa í aðra umferð.
Ekki voru búnar nema 42 sekúndur þegar gestirnir frá Kaupmannahöfn komust yfir. Þá slapp Jordan Larsson í gegn eftir sendingu frá Valdemari Lund en Anton Ari Einarsson, markvörður Blika, hafði nægan tíma til þess að koma út og sparka boltanum burt.
Anton var hinsvegar alltof lengi og þegar hann loks kom út var hann of seinn en hann setti boltann í Larsson og þannig slapp Svíinn einn á móti marki og renndi boltanum inn, 1:0 fyrir Köbenhavn og martraðarbyrjun Blika staðreynd.
Blikaliðið sótti í sig veðrið eftir það og var nokkuð betri aðilinn næstu mínútur. Gísli Eyjólfsson fékk fljótlega gott skotfæri en Kamil Grabara, markvörður Köbenhavn, varði frá honum.
Besta færi Blika í fyrri hálfleik kom á 26. mínútu þegar Viktor Örn Margeirsson skallaði boltann að marki Köbenhavn og boltinn var á leiðinni inn. Markaskorari FCK, Larsson, var aftur á móti á línunni og bjargaði listilega með bakfallsspyrnu og hélt sínu liði í forystunni.
Larsson var svo aftur á ferðinni á 32. mínútu þegar hann átti glæsilega hælsendingu á fyrirliðann Rasmus Falk sem renndi boltanum framhjá Antoni Ara og kom Köbenhavn í 2:0, dýrt eftir öll klúður Blika.
Blikaliðið virtist slegið eftir markið en lítið var að frétta í sóknarleik Blikana það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og fóru þeir tveimur mörkum undir til búningsklefa.
Seinni hálfleikurinn var hinn rólegasti en Blikar fengu fá góð færi til þess að minnka muninn. Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn á í liði Köbenhavn á 58. mínútu og á þeirri 71. kom Orri Steinn, sonur Óskars Hrafns Þorvaldssonar þjálfara Blika, inn á.
Köbenhavn hélt 2:0-forystu sinni allan síðari hálfleikinn og sigldi sigrinum heim en undir lok leiks fékk Orri Steinn gott skallafæri til þess að koma Köbenhavn í 3:0 en skallaði rétt framhjá.
Ágúst Eðvald Hlynsson var nærri því að skora fyrir Blika í uppbótartímanum en Grabara varði vel fast skot hans.
Seinni leikur liðanna fer fram í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn í næstu viku. Sigurliðið í einvíginu mætir Spörtu Prag frá Tékklandi í 3. umferð keppninnar en tapliðið mætir annað hvort Zrinjski frá Bosníu eða Slovan Bratislava frá Slóvakíu í 3. umferð Evrópudeildarinnar.