Færeyingurinn Jóan Símun Edmundsson er í hópi KA-manna annað kvöld þegar Akureyringar taka á móti írska liðinu Dundalk í 2. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta.
Þetta staðfesti Hallgrímur Jónasson í samtali við mbl.is í Úlfarsárdal í dag. Jóan er 32 ára gamall framherji sem gekk til liðs við KA á dögunum. Hann er eini Færeyingurinn til þess að spila og skora í efstu deild Þýskalands en hann lék með Arminia Bielefeld.
„Jóan er í hóp á morgun og okkur líst mjög vel á það. Hann mun styrkja okkur mikið. Hann kom á sína fyrstu æfingu með okkur í dag en hann spilaði síðast fyrir mánuði síðan.
Þá skoraði hann gegn Albaníu með færeyska landsliðinu, þannig hann er gríðarlega góður leikmaður sem við verðum að koma hægt og rétt inn í okkar leik,“ sagði Hallgrímur.
Færeyingurinn spilaði um tíma með Hallgrími Jónassyni hjá OB í Danmörku.
Þá sagði Hallgrímur að Ívar Örn Árnason, miðvörður liðsins, sé tæpur fyrir leikinn annað kvöld sem hefst klukkan 18 í Úlfarsárdal.