Ber mikla virðingu fyrir þessu félagi

Birta hugar að Ástu Eir Árnadóttur fyrirliða Breiðabliks í dag.
Birta hugar að Ástu Eir Árnadóttur fyrirliða Breiðabliks í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Birta Georgsdóttir, leikmaður Breiðabliks, var svekkt eftir 1:1-jafntefli liðsins við FH á útivelli í Bestu deildinni í fótbolta í dag. Breiðablik er í miklum titilslag við Val og því vont að tapa stigum.

„Við erum svekktar. Þetta var hörkuleikur og við vissum að við værum á leiðinni í alvörubaráttu. Þetta var basl, en við virðum stigið,“ sagði Birta við mbl.is eftir leikinn. „Það vantaði síðustu aðgerðina á síðasta þriðjungi í dag. Það vantaði aðeins upp í sókninni til að klára þetta,“ bætti hún við.

Birta lék með FH frá 2018 til 2020 og var að mæta liðinu í fyrsta sinn síðan hún skipti yfir í Breiðablik. „Ég ber mikla virðingu fyrir þessu félagi og það er mjög gaman að koma hingað. Ég hef ekkert spilað hérna síðan ég var hér. Það er alltaf gaman að mæta FH.“

Hún gerði mark Breiðabliks er hún kláraði af stuttu færi í lok fyrri hálfleiks. „Það er alltaf gaman að skora, en pirrandi að ná ekki að klára leikinn,“ sagði hún. Breiðablik er nú stigi á undan Val, sem á leik til góða. „Það er nóg eftir og við eigum leik eftir á móti þeim. Við ætlum okkur alla leið,“ sagði Birta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert