FH og Breiðablik skildu jöfn, 1:1, á Kaplakrikavelli í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Breiðablik er í toppsætinu með 27 stig, einu stigi á undan Val sem á leikt il góða. FH er enn í fjórða sæti með 21 stig.
FH komst yfir strax á 6. mínútu er Vigdís Edda Friðriksdóttir kláraði í teignum eftir góða sókn og fyrirgjöf frá Shaina Ashouri.
Breiðablik svaraði með að skapa sér nokkur mjög góð færi, en Aldís Guðlaugsdóttir var í miklu stuði í markinu. Varði hún m.a. frá Andreu Rut Bjarnadóttur þegar hún slapp ein í gegn og einnig frá Birtu Georgsdóttur úr góðu færi. Þá gerði hún vel þegar Agla María Albertsdóttir slapp í gegn en náði ekki skoti á markið.
Birta, sem lék áður með FH, sigraðist hins vegar á Aldísi á 44. mínútu er hún skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur og var staðan í leikhléi 1:1.
Hafrún Rakel komst í tvígang nálægt því að skora í seinni hálfleiknum. Í bæði skiptin átti hún góð skot úr teignum, sem Aldís gerði virkilega vel í að verja. Agla María átti einnig gott skot eftir rúmar 70 mínútur, en enn varði Aldís.
Þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma gerði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks þrefalda skiptingu til að reyna að knýja fram sigurmark. Það tókst hins vegar ekki og liðin skiptu með sér stigunum.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á mánudag.