KSÍ stakk okkur í bakið

Þjálfarinn Jóhann Kristinn Gunnarsson og Sandra María Jessen fara yfir …
Þjálfarinn Jóhann Kristinn Gunnarsson og Sandra María Jessen fara yfir málin. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það verða Mærudagar í daprari kantinum hjá Jóhanni Kristni Gunnarssyni þetta árið. Jóhann er Húsvíkingur og þjálfari Þórs/KA í Bestu-deildinni í fótbolta. Hann þurfti að horfa upp á sitt lið tapa 4:0 í dag þegar Þróttur kom í heimsókn á VÍS-völlinn á Akureyri. Ekki nóg með það þá voru mörk Þróttar sum hver ansi ódýr.

„Ég er hundsvekktur eins og alltaf eftir tapleiki. Ég finn bara til með liðinu mínu að hafa tapað svona illa á heimavelli. Við eigum ekki að sýna varnarleik eins og við sýndum hérna í dag. Hann var ekki til neins útflutnings. Hann var eiginlega alveg hörmulegur. Þróttur fór mjög auðveldlega inn að marki okkar og við byrjuðum leikinn alveg hræðilega. Löðrungurinn sem við fengum í upphafi leiks var verðskuldaður.

Þróttur hefði svo alveg getað bætt við marki snemma í leiknum. Við hefðum svo getað jafnað í 1:1 en stórkostleg markvarsla kom í veg fyrir það. Með gæðum hjá þeim og klaufaskap hjá okkur þá endaði þetta í 4:0. Við þurfum að verjast betur, það er ekki spurning. Við eigum að gera betur í okkar teig en líka að sýna meiri áræðni þegar við sækjum.

Við vorum dálítið hikandi á sóknarþriðjungi okkar í dag. Nú erum við búin að tapa tveimur heimaleikjum í röð með 0:6 á bakinu. Við megum ekki missa trúna á okkar getu og hvað við eigum að geta. Það eru allskyns atriði sem spila inn í. Það er pása og ýmislegt annað.“

Erfitt verkefni

Margrét Árnadóttir kom inn í lið Þórs/KA í dag eftir hálft ár hjá ítalska liðinu Parma. Hvað fannst Jóhanni um að fá hana til baka.

„Hún kom inn í dag í erfitt verkefni. Hún er mikill liðsstyrkur. Hún skilaði sínu með sóma í dag.“

Nú er þetta annar leikur Þórs/KA í deildinni sem liðið er án Tahnai Annis og Dominique Randle. Þær leika með landsliði Filippseyja, sem nú spilar á HM í knattspyrnu í fyrsta skipti. Filippseyjar eiga einn leik eftir í riðlakeppni mótsins og á ágæta möguleika á að komast í 16-liða úrslitin. Þá þyrfti Þór/KA að bíða lengur eftir að fá þær til baka. Jóhann gleðst að sjálfsögðu yfir árangri þeirra.

„Ef þær komast upp úr riðlinum og í 16-liða úrslit þá yrði það frábært fyrir þær en hrikalegt fyrir okkur. Þessir tveir leikir sem við höfum spilað án þeirra hefðu ekki átt að fara fram. KSÍ stakk okkur illa í bakið með það og mismunar félögum mjög illa. Við skiljum það ekki og fáum engin svör af hverju þetta er svona.

KSÍ frestar einhliða leik hjá Völsungi og KF út af einum leikmanni sem er valinn í 30- manna hóp hjá Tanzaníu í júní. Þá var enginn spurður. Leiknum var frestað og fundinn nýr tími, allt gert af KSÍ. Svo kemur U-19 og þá er í boði fyrir liðin að fresta ef þau eiga leikmann þar. Þá er andstæðingurinn ekki spurður og nýtt úrræði fengið.

Svo kemur að þessu að það er eitthvað lítið mót í Nýja-Sjálandi og Ástralíu, sem heitir HM. Þar eru dagsetningar klárar en leikmenn á Íslandsmótinu að spila. KSÍ neita okkur um að færa leiki og það er eitthvað skrýtið við það auk þess sem skoðun andstæðingsins er allt í einu farin að vega þyngst.“

Geti ekki tekið tillit til landsleikja

Jóhann bætti svo við ansi gramur:

„Ég á erfitt með að útskýra þetta allt saman og ég væri svo til í að einhver myndi spyrja KSÍ að þessu því að þeir svara okkur ekki. Það eina sem þeir segja við okkur er að KSÍ geti ekki tekið tillit til landsleikja úti í heimi, sem eru í glugga sem mótahald á Íslandi er ekki raðað niður eftir. Ísland hefði alveg getað verið með á þessu móti en við komumst bara ekki þangað.

Svo má spyrja, af hverju mismunum við þessum leikmönnum? Þeir eru ekki íslenskir en þeir eru samningsbundnir íslenskum félögum. Þeir eiga heima hér, fá kennitölu og bankareikning. Ég veit ekki af hverju þetta er svona en væri mjög til í að vita það.“

Nú er stutt í næstu leiki ykkar. Þeir eru útileikir gegn FH og Breiðabliki, sitt hvoru megin við Verslunarmannahelgina. Sú helgi var nú lituð ákveðnum litum í gamla daga og kannski enn. Þið munið hins vegar bara æfa og spila þessa daga í kringum helgina.

„Já þetta er bara svona núna. Þarna hefur nú yfirleitt verið smá sumarfrí hjá liðunum. Nú er bara spilerí. Það er leikur í Hafnarfirði á miðvikudagskvöldi og svo í Kópavogi á mánudag. Allir hinir leikirnir í umferðinni eru færðir af frídegi verslunarmanna. Breiðablik er í bikarúrslitaleik helgina eftir og spilar því á mánudaginn gegn okkur. Það er því mikið að gera núna.“ Jóhann hjó svo í sama knérunn með frestun og færslu leikja.

„Það þarf einhver að fara að velta því fyrir sér af hverju þetta er svona erfitt stundum. Við erum að spila rúmlega 20 leiki í deildarkeppni yfir rúma sex mánuði og það er ekki viðlit að fresta hér einum eða tveimur vegna heimsmeistaramóts. Það þarf eitthvað að skoða þessi mál“ sagði þjálfarinn skeleggi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert