Breiðablik og Stjarnan skildu jöfn, 1:1, í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Breiðablik er því enn í þriðja sæti, nú með 34 stig og sjö stigum á eftir toppliði Víkings úr Reykjavík. Stjarnan er nú komin upp fyrir KR og upp í fjórða sætið, þar sem liðið er með 22 stig.
Lítið var um færi í fyrri hálfleik, en töluvert meira af ljótum brotum. Fengu Stjörnumenn þrjú gul spjöld á fyrstu 18 mínútunum og sýndu gestirnir mikla hörku. Blikarnir svöruðu því og fengu næstu tvö spjöldin. Voru komin fimm gul spjöld á fyrstu rúmu 30 mínútunum.
Breiðablik komst ekki sérlega nálægt því að skora í hálfleiknum. Ágúst Eðvald Hlynsson átti skot rétt utan teigs um miðjan hálfleikinn, en boltinn beint á Árna Snæ Ólafsson í marki Stjörnunnar.
Hinum megin komst Emil Atlason næst því að skora þegar hann skaut í stöng úr aukaspyrnu rétt utan teigs í lok hálfleiksins. Mörkin létu hins vegar á sér standa í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 0:0.
Þannig var staðan þangað til á 62. mínútu, þegar Stjarnan komst yfir. Emil Atlason kláraði þá vel í teignum eftir fyrirgjöf frá Guðmundi Kristjánssyni frá hægri.
Blikarnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna og Viktor Karl Einarsson átti skot í stöng stuttu síðar. Heimamenn héldu áfram að sækja og jöfnunarmarkið kom loks á 78. mínútu.
Það gerði Jason Daði Svanþórsson með glæsilegri afgreiðslu innan teigs, eftir fyrirgjöf frá Kristni Steindórssyni. Eftir markið voru heimamenn mikið líklegri til að skora sigurmarkið.
Allt kom hins vegar fyrir ekki og liðin skiptu með sér stigunum.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á mánudag.