Það meiddi sig enginn

Árni Snær í markinu í kvöld.
Árni Snær í markinu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Bæði lið eru örugglega svekkt að fá ekki þrjú stig. Eitt á hvort lið er samt örugglega sanngjarnt,“ sagði Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Breiðabliki í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Klæmint Olsen fékk dauðafæri til að skora sigurmark Breiðabliks í uppbótartíma, en Árni gerði gríðarlega vel í að verja frá þeim færeyska. „Ég hélt hann væri að fara að skora, en svo náði ég að gera mig stóran og þetta reddaðist.“

Hann var ánægður með spilamennsku Stjörnunnar, á einum erfiðasta útivelli landsins.

Árni Snær ræðir við mbl.is í kvöld.
Árni Snær ræðir við mbl.is í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Við vorum helvíti fínir. Við áttum skot í stöng og hefðum getað verið yfir í hálfleik. Við hefðum getað haldið betur í boltann og stýrt leiknum betur eftir að við komumst í 1:0.

Þeir eru geggjað góðir og þetta var góður leikur á milli tveggja góðra liða. Þetta var gaman fyrir áhorfendur og okkur,“ sagði hann.

Stjörnumenn voru komnir með þrjú gul spjöld eftir tæplega 20 mínútna leik, en Árni segir uppleggið ekki hafa verið að sparka í Blikana. „Það þarf ekki að leggja það upp. Það voru spjöld á bæði lið og þetta er hluti af þessu. Þetta er grannaslagur og var ekkert gróft. Það meiddi sig enginn.“

Árni Snær Ólafsson í leiknum í kvöld.
Árni Snær Ólafsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Stjarnan var um tíma í fallbaráttu, en eftir að Jökull Elísabetarson tók við liðinu hefur gengið batnað til muna. Er liðið nú að berjast um Evrópusæti.

„Við höfum náð að slípa okkur betur saman. Við fáum meira sjálfstraust þegar sigrarnir koma. Við finnum að við erum helvíti góðir. Við getum unnið öll lið. Það er að ganga betur núna en í byrjun,“ útskýrði Skagamaðurinn.

Leikmannahópur Stjörnunnar er skipaður spennandi ungum leikmönnum í bland við eldri og reynslumeiri. „Við erum allir unglingar í persónu. Bæði ungu strákarnir og þeir eldri eru geggjaðir og þetta er mjög skemmtilegt,“ sagði Árni Snær.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert