„Liðið lítur mjög vel út eins og það er núna,“ sagði Jóhann Ingi Hafþórsson, íþróttablaðamaður mbl.is og Morgunblaðsins, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi miðilsins, þegar rætt var um karlalið Vals í fótbolta.
„Þeir töpuðu fyrir Stjörnunni um daginn en frammistaðan þar var ekki alslæm. Patrick Pedersen hefði getað skorað fjögur mörk á öðrum degi.
Fyrir utan þann leik hafa þeir verið á mjög góðu róli. Það væri frekja að biðja um meira í þennan leikmannahóp,“ bætti hann við.
Þáttastjórnandinn Aron Elvar Finnsson greip þá inn í og spurði hvort Jóhann myndi samþykkja að fá Gylfa Þór Sigurðsson inn í leikmannahópinn, en hann æfði með Val á dögunum. „Það eru undantekningar á öllum reglum,“ svaraði Jóhann þá.
Umræðan um Bestu deild karla í knattspyrnu hefst á 1. mínútu en hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er einnig aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum.