„Fyrirgefðu pabbi“

Óskar Hrafn Þorvaldsson og Orri Steinn Óskarsson ræðast við eftir …
Óskar Hrafn Þorvaldsson og Orri Steinn Óskarsson ræðast við eftir fyrri leikinn á Kópavogsvelli. mbl.is/Hákon Pálsson

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, sagðist ekki vilja óska sínum versta fjandmanni að vera í þeim sporum sem hann stóð í á Parken í Kaupmannahöfn í kvöld.

Breiðablik tapaði þar 6:3 fyrir FC Köbenhavn í seinni leik liðanna í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar karla í fótbolta og Orri Steinn Óskarsson, sonur Óskars Hrafns, skoraði þrennu fyrir dönsku meistarana og lagði upp eitt mark að auki.

„Ég myndi ekki óska mínum versta fjandmanni að vera í þessari stöðu og upplifa þetta. Að spila gegn syni sínum og óska þess i raun og veru að hann standi sig ekki vel,“ sagði Óskar Hrafn við Viaplay eftir leikinn.

„En ég er líka virkilega stoltur af honum. Hann sýndi gríðarlegt sjálfstraust í kvöld, okkur tókst ekki að ráða við hann, svo ég gleðst yfir því fyrir hans hönd.

Ég er líka stoltur af mínu eigin liði, því við byrjuðum leikinn vel og stjórnuðum honum í 30 mínútur, en þá gekk FCK frá okkur með sínum einstaklingsgæðum,“ sagði Óskar.

Hann var spurður hvort hann hefði talað við Orra Stein eftir leikinn. „Bara í tíu sekúndur. Hann sagði, fyrirgefðu pabbi,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert