Breiðablik er úr leik í Meistaradeild Evrópu í fótbolta eftir 3:6-tap á útivelli gegn FCK í seinni leik liðanna í 2. umferðinni á Parken í kvöld. FCK vann fyrri leikinn 2:0 og einvígið samanlagt 8:3.
Óhætt er að segja að um draumabyrjun hafi verið að ræða hjá Blikum, því Jason Daði Svanþórsson skoraði glæsilegt mark á 10. mínútu er hann vippaði skemmtilega yfir Kamil Grabara í marki FCK og í netið.
Var Breiðablik líklegra til að bæta við marki og jafna einvígið næstu mínútur en FCK að jafna. Blikar gerðu vel í að loka á allt sem dönsku meistararnir reyndu og var staðan enn 1:0 þegar hálftími var liðinn.
En þá fór allt í baklás hjá Íslandsmeisturunum. Portúgalinn Diogo Goncalves jafnaði úr aukaspyrnu á 34. mínútu og Elias Achouri kom FCK yfir á 36. mínútu er hann slapp einn í gegn.
Mínútu síðar kom Jordan Larsson FCK í 3:1 eftir sendingu frá Orra Steini Óskarssyni og dönsku meistararnir voru allt í einu komnir tveimur mörkum yfir. Orri sá svo sjálfur um að gera fjórða markið á 45. mínútu með góðri afgreiðslu innan teigs og voru hálfleikstölur 4:1.
Orri Steinn var ekki lengi að bæta við sínu öðru marki og fimmta marki FCK í seinni hálfleik. Hann slapp í gegn á 2. mínútu hálfleiksins og skoraði með annarri mjög huggulegri afgreiðslu.
Blikar voru ekki búnir að syngja sitt síðasta, því fjórum mínútum síðar átti Kristinn Steindórsson skot í varnarmann og boltinn flaug í boga yfir Grabara í marki FCK og í netið.
Fimm mínútum síðar var Orri aftur á ferðinni er hann fékk boltann á miðjunni, fór illa með Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson og kláraði með fallegri afgreiðslu utan teigs. Fullkomnaði Orri með því þrennuna.
Breiðablik á hrós skilið fyrir að halda áfram allan tímann og Höskuldur Gunnlaugsson skoraði þriðja mark Íslandsmeistaranna á 74. mínútu með föstu skoti, beint úr aukaspyrnu sem Klæmint Olsen náði í.
Eftir markið róaðist leikurinn töluvert, enda voru úrslitin löngu ráðin, og danska liðið vann afar öruggan sigur í einvíginu. Orri Steinn Óskarsson stal senunni í kvöld með þremur mörkum og einni stoðsendingu.
Úrslitin þýða að Breiðablik er komið niður í Evrópudeildina, þar sem liðið mætir Zrinjski frá Bosníu í 3. umferðinni. FCK mætir Sparta Prag frá Tékklandi í 3. umferð Meistaradeildarinnar.