Verður kannski rætt um jól eða páska

Orri Steinn Óskarsson skoraði þrjú mörk gegn Blikum í kvöld.
Orri Steinn Óskarsson skoraði þrjú mörk gegn Blikum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Orri Steinn Óskarsson, framherji dönsku meistaranna FC Köbenhavn, segir að þrennan hans gegn Breiðabliki í kvöld verði eflaust einhvern tíma rædd á hátíðastundum með fjölskyldunni.

Orri skoraði þrjú mörk í sigri FCK í leik liðanna á Parken í kvöld, þegar dönsku meistararnir sigruðu Breiðablik, undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar föður hans, 6:3, í seinni leik liðanna í annarri umferð undankeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta.

„Ég mun líklega aldrei gleyma þessu og það kæmi ekki á óvart þó þetta yrði einhvern tíma rætt um jól eða páska,“ sagði Orri með bros á vör við bold.dk eftir leikinn.

Hann kvaðst jafnframt vera feginn því að leikirnir tveir gegn Breiðabliki væru að baki.

„Það er gott að snúa aftur í þá stöðu að vera bara faðir og sonur á ný. Ég hlakka til þess. Fyrir fyrri leikinn leið mér dálítið illa yfir því að þurfa að mæta föður mínum, en um leið og maður er kominn inn á völlinn, þá er þetta bara eins og hver annar fótboltaleikur,“ sagði Orri Steinn.

Hann er fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn sem skorar þrennu gegn íslensku liði í Evrópukeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert